Skip to main content

Öll hafa áhrif á árangur!

By júní 8, 2023Viðburðir

Dagur: 14. september 2023

Tími: 9:15-10:15

Fjarfundur á TEAMS

Árangur skipulagsheilda byggir á starfsfólki sem líður vel, er sálfélagslega öruggt, upplifir traust og finnur að það er partur af öflugri liðsheild. Hegðun og framkoma starfsfólks og stjórnenda á vinnustöðum hefur mikil áhrif þegar kemur að því að byggja upp þessar lykilforsendur sem liðsheild, traust og sálfélagslegt öryggi eru.

Þrátt fyrir það virðist stundum eins og líðan og hegðun starfsfólks og stjórnenda sé ekki gefinn nægur gaumur og sums staðar komast einstaklingar upp með að axla ekki ábyrgð á hegðun sinni inn á vinnustöðum, sem oft á tíðum getur leitt til mikillar meðvirkni. Áhrif þess geta verið margvísleg og haft fjölmargar afleiðingar fyrir allan hópinn, dregið úr trausti, hamingju, starfsgleði, virkni starfsfólks og framleiðni svo eitthvað sé nefnt.

Í fyrirlestrinum fer Sigríður Indriðadóttir yfir ýmis konar hegðunarmynstur og mögulegar afleiðingar þeirra fyrir atvinnulífið. Samhliða því veltir hún upp leiðum til að opna huga starfsfólks og stjórnenda fyrir því hversu mikil áhrif hvert og eitt okkar hefur á árangur í raun og veru, með það fyrir augum að auka sjálfsþekkingu fólks þannig að það eigi auðveldara með að axla ábyrgð á hegðun sinni og frammistöðu.

Sigríður Indriðadóttir hefur á sínum ferli sem forstöðumanneskja mannauðsmála og stjórnendaráðgjafi unnið mikið með líðan, liðsheild og hegðun fólks inni á vinnustöðum. Hún hefur stutt við bæði stjórnendur og starfsfólk á þeirri vegferð að vera meðvitaðra um eigin líðan, meðvirkni og hegðun, með það að markmiði að byggja upp traust, bæta samskipti, efla liðsheild og auka bæði hamingju og árangur.

Skráning á fjarfundinn

Ljósmyndir eru teknar á viðburðum félagsins og einnig mæta fjölmiðlar stundum á staðinn. Gestir geta því átt von á að teknar séu myndir af þeim og birtar í tengslum við viðburði Mannauðs.