Lýsing
Starfsfólk á íslenska vinnumarkaðnum er að eldast og á næstu árum er stór kynslóð reynslumikilla einstaklinga að fara að hætta störfum sökum aldurs. Þessir einstaklingar hafa margir hverjir áratuga starfsreynslu hjá sínum fyrirtækjum og hafa öðlast sérþekkingu á starfsemi þess. Til að missa ekki þessa mikilvæga þekkingu frá sér þurfa fyrirtækin að bregðast við að þróa aðferðir til að yfirfæra þekkinguna með árangursríkum hætti.
Elín Greta Stefánsdóttir, mannauðsstjóri Verkís ætlar að bjóða okkur í heimsókn til sín og segja frá niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði í tengslum við mastersverkefni um yfirfærslu þekkingar frá starfsmönnum sem eru að hætta sökum aldurs. Rannsóknin var gerð í nokkrum orkufyrirtækjum þar sem kannað var hvort fyrirtækin hefðu sett sér stefnu eða væru með ákveðna ferla við yfirfærslu þekkingar. Einnig var skoðað hvaða aðferðir viðmælendur töldu árangursríkastar að nota við yfirfærsluna og hverjar væru helstu hindranirnar.
Eftir fundinn stendur okkur til boða að skoða húsnæðið og vinnuaðstöðuna.
Vinnuumhverfið var endurhannað fyrir nokkrum árum þegar Verkís flutti í það nýtt. Rétta vinnuumhverfið er mjög mikilvægt varðandi yfirfærslu þekkingar.
Fundurinn verður hjá Verkís, Ofanleiti 2 og hefst kl. 9:00. Léttur morgunverður frá kl. 8:30.