Skip to main content

Eitt af lykilatriðum þess að okkur líði almennt vel er að við höfum nóg að gera, upplifum að einhver hafi þörf fyrir okkur og höfum nægan frítíma.  Oft hefur verið bent á það að atvinnuleysi geti verið hættulegt heilsu manna og það sama gildir um ýmsar aðstæður á vinnustað fólks.  Fyrir utan ýmsa vistfræðilega þætti eins og mengun, hávaða, lélegar vinnuaðstæður og slíkt, þá er samskiptaþátturinn gríðarlega mikilvægur.  Mun mikilvægari en menn halda.

Mikilvægi samskiptaþáttarins og þess að líða vel á vinnustað hefur farið stigvaxandi og sýna rannsóknir að um 60% starfsfólks telur vinnuna hafa mikil áhrif á heilsufar þess.  Einnig hafa miklar og tíðar breytingar á vinnumarkaði verulega slæm áhrif sem og sameiningar og niðurskurður hjá fyrirtækjum, sérstaklega ef ekki er vel að málum staðið.  Á vinnustöðum þar sem starfsmenn njóta lítils stuðnings er hættan ennþá meiri.  Þó nokkur umræða hefur verið um KULNUN starfsmanna á vinnumarkaðnum en hana má rekja beint til líðan og upplifun á vinnustað.  Þetta er málefni sem stjórnendur fyrirtækja og starfsmenn mannauðsdeilda verða að taka alvarlega.

Hugtakið „KULNUN“ kom fyrst fram í kringum 1974.  Á síðari árum hefur kulnun í starfi mikið verið rannsökuð og margar greinar birtar um það efni.  Kulnun hefur verið skilgreind á ýmsan máta en lykilatriðin eru einna helst mjög mikil þreyta, eiginlega svo mikil að þú upplifir þig algjörlega úrvinda og örmagna, bæði líkamlega og tilfinningalega.  Hún lýsir sér einnig í minni starfslöngun og vinnufærni,  áhugaleysi, einbeitingarleysi, stöðugum áhyggjum, framtaksleysi, frumkvæði, sinnuleysi og svefnraskanir fara að gera vart við sig. Kulnunin á sér oftast aðdraganda og byrjar oftast fyrst sem vinnutengd streita sem eykst og breytist síðan í ofálag sem getur síðan endað með  kulnun.

Ég velti stundum fyrir mér gömlu „íslensku vertíðarvinnumenningunni“ sem byggði á mikilli vinnuhörku og vinnuþátttöku og hvort hún sé að hluta til orsökin.  Á þeim tíma fannst fólki allt í lagi að vinna mikið og lengi og var þakklátt fyrir að hafa vinnu yfirhöfuð.  Starfsmenn unnu jafnvel allt sitt líf á sama vinnustaðnum.  Allir áttu að vera tilbúnir að vinna mikið og afkasta miklu og helst klára allt í dag sem þurfti að gera.  Allir vildu fá það orð á sig að þeir væru „duglegir“ og helst „ómissandi“.  Einnig hefur orðatiltækið „þetta reddast“ mikið verið notað og því oft farið af stað í verkefni, alltof seint með alltof lítinn mannskap í þeirri von að það myndi „reddast“. Og oftast reddaðist það og gerir ennþá.  En leið starfsfólkinu vel?

Ég velti líka fyrir mér hvort eignarhaldi fyrirtækja hafi verið um að kenna, sem hér áður fyrr var að stórum hluta til í einkaeigu undir stjórn eigendanna sjálfra sem kröfðust meiri hollustu og vinnuhörku.

Í dag virðist fátt hafa breyst þrátt fyrir að yngri, mjög vel menntaðir og reynslumiklir hlutlausir stjórnendur hafi tekið við.  Kröfur til starfsmanna hafa jafnvel aukist og siðferði og heilsa starfsmanna jafnvel verið sett á vogarskálina til að ná settum markmiðum og tímamörkum.
Því er svarið NEI, því er ekki um að kenna.

Rannsóknir sýna að nýjar kynslóðir sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn gera allt öðruvísi kröfur til starfsins en sú eldri gerði og hafa allt aðrar hugmyndir um vinnusambandið.  Þessi hópur starfar skemur á hverjum vinnustað og hræðist  síður breytingar. Hann krefst þess að starfið sé skemmtilegt og vinnuumhverfið gott.  Vinnutími jafnvel sveigjanlegur og að starfið feli í sér áskoranir og lærdóm.  Þannig að þau fyrirtæki sem vilja ná til sín og halda hjá sér bestu starfsmönnunum verða að taka tillit til þessara nýju krafna.  Til að þessi nýja kynslóð sleppi við upplifun kulnunar þurfa árangursmarkmiðin og starfskröfurnar að vera skýrar og í takt við eðlilegt vinnuframlag.

Hraðinn og samkeppnin mun bara aukast með tilkomu tækninnar og bæði stjórnendur og starfmenn sjálfir verða að vera meðvitaðir um það hvað er „heilbrigt“ vinnuhverfi og hvað eru „heilbrigðar“ vinnukröfur.  Fyrirtækjaeigendur og stjórnendur verða að átta sig á sinni ábyrgð á því að skapa og bjóða upp á heilbrigt vinnuumhverfi og heilbrigða vinnumenningu, þar sem starfsfólk er metið á öðrum þáttum en bara vinnutíma. Starfsfólk þarf að setja mörk varðandi vinnutíma og einnig að brjóta upp daginn, hvíla og endurnæra hugann, t.d. með stuttum gönguferðum eða góðu spjalli við vinnufélaga yfir kaffibolla.

Mannauðsdagurinn 2018 sem er ráðstefna Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi, verður haldinn föstudaginn 28. september n.k. í Hörpu.  Þar heldur Christian Ørsted danskur sérfræðngur og fræðimaður mjög áhugaverðan fyrirlestur sem heitir „The Myths of Modern Management“.  Þar mun hann tala um gamlar stjórnunaraðferðir og hvernig þær hafa hugsanlega leitt til kulnunar starfsmanna samhliða því sem þær bættu árangur og juku gróða fyrirtækja. Hann mun ræða það hvernig við erum að stjórna í dag og hvaða afleiðingar það er að hafa og hvað við getum gert til þess að tryggja góðan árangur fyrirtækja samhliða góðri líðan starfsmanna á vinnustað.

Sigrún Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi