Skip to main content

Það eru mörg viðfangsefnin sem stjórnendur fyrirtækja og stofnana standa frammi fyrir þegar horft er til nánustu framtíðar á vinnumarkaði.   Ný  kynslóð, Z-kynslóðin, er að feta sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum, kynslóð sem hefur alist upp við tækni og vísindi allt sitt líf og talar tungumál sem eldri kynslóðir eiga erfitt með að skilja. Þessi kynslóð gerir aðrar kröfur og finnst sjálfsagt að jafnt einföld sem flókin verk séu unnin með hjálp tölvu, sjálfvirkni  eða einhvers konar tækni.  Margir óttast þessa þróun og telja að störfum komi til með að fækka þó líklegra sé að líkt og í fyrri tæknibyltingum muni sum störf hverfa en á sama tíma skapast ný.

Rannsókn mannauðsfélaganna á Norðurlöndunum
Þeir sem stafa að mannauðsmálum, bæði hér heima og erlendis hafa mikið rætt um og velt fyrir sér framtíð starfa.  Á Mannauðsdeginum, árlegri ráðstefnu félags mannauðsfólks á Íslandi var fjallað um þetta viðfangsefni út frá ýmsum sjónarhornum. Þá gerðu samtök mannauðsfólks á Norðurlöndunum og Íslandi (European Associasion for Personal Management) í samstarfi við Ernst og Young nýlega rannsókn meðal félagsmanna þar sem skoðað  var hvaða áskoranir það eru sem tæknivæðing framtíðarinnar mun aðallega hafa í för með sér.  Þær voru:
– Sjálfvirknivæðing starfa
– Sveigjanlegt og alþjóðlegt vinnuafl
– Breytingar í aldurssamsetningu vinnuafls
– Úrvinnsla gagna

Það kemur kannski ekki á óvart að sjálfvirknivæðing starfa var það sem flestir töldu vera eitt helsta viðfangsefnið.  Við sjáum nú þegar dæmi þess að tækni sé farin að leysa af hólmi verkefni sem mannshöndin sinnti áður. Í matvöruverslunum erlendis fer afgreiðslufólki á kassa fækkandi og sjálfsafgreiðslustöðvar orðnar æ meira áberandi.  Þá kannast allir við að innritunarborðum í flugstöðvum fer fækkandi og farþeginn sér sjálfur um að innrita sig og farangurinn sinn.

Það sem kemur  á óvart er að aðeins 44% þeirra sem tóku þátt í könnuninni telja fyrirtækið sitt tilbúið til þess að takast á við þessa sjálfvirknivæðingu.  66% svarenda telja sig því ekki tilbúna.  Þessir aðilar þurfa að vakna upp af svefninum og átta sig á að framtíðin er ekki lengur handan við hornið, hún er núna og því þarf að grípa til aðgerða.

Sveigjanleiki í starfi og alþjóðlegra vinnuafl er önnur stór áskorun.   Yngri kynslóðir hafa ekki sömu gildi og fyrri kynslóðir og  eru óhræddari við að taka að sér styttri verkefni og starfa skemur á hverjum stað, í stað þess að ráða sig á einn vinnustað og vinna þar alla sína ævi.  Reynslan sýnir að fyrirtæki muni í síauknum mæli nýta sér verktaka og lausráðið starfsfólk auk samvinnu við aðra aðila í samskonar iðnaði. Einungis þriðjungur taldi fyrirtækið sitt tilbúið fyrir þessar breytingar.

Þriðja áskorunin er breyting á aldurssamsetningu vinnuafls. Aldrei fyrr hafa eins margar kynslóðir verið saman á vinnumarkaði og með bættri heilsu og líðan er fólk tilbúið að starfa lengur sem kallar á fjölbreyttari kröfur.  Meiri hluti svarenda töldu fyrirtækin vera farin að taka tillit til þessarra ólíku þarfa. Hér á landi sjáum við þessa þróun vera að eiga sér stað og má nefna tilraunverkefnið um styttingu vinnuvikunnar sem er m.a. er ætlað að stuðla að jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Greining og úrvinnsla gagna er stór áskorun því eitt er að afla gagna en annað er að geta nýtt það forspárgildi sem getur falist í þeim.

Með nýrri tækni og breyttri samsetningu vinnuafls eru stórar breytingar á vinnumarkaði óhjákvæmilegar. Þetta er þó misjafnt eftir atvinnugreinum og almennt séð er vitund stjórnenda um þessar áskoranir sterk.   Niðurstaða rannsóknarinnar segir okkur þó að  fyrirtæki á Norðurlöndum virðast ekki vera tilbúin fyrir þessar breytingar og geta þeirra til þess að nýta sér þær og hagnast á þeim reyndist minni en vonast var til.

Brynjar Már Brynjólfsson, verkefnastjóri umbóta hjá Origo og formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi.

Sigrún Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi