Skip to main content

Sigrún Kjartansdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi en félagið hefur það hlutverk að efla fagmennsku mannauðsstjórnunar í þágu íslensks atvinnulífs.

Uppruna félagsins má rekja til klúbbs starfsmannastjóra sem stofnaður var á tíunda áratugnum sem síðar þróaðist yfir í félag fyrir alla mannauðsstjóra hér á landi. Frá árinu 2015 hefur félagið verið fagfélag allra þeirra sem starfa sem mannauðsstjórar eða sérfræðingar við mannauðsmál hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum.

Markmið félagsins er að efla fagmannesku í mannauðsstjórnun á Íslandi með virkri þátttöku í umræðu um mannauðsmál. Félagsmenn eru á þriðja hundrað og fer ört fjölgandi.

Sigrún býr yfir áralangri reynslu af stjórnun og rekstri en hún starfaði lengi sem stjórnandi hjá Íslandsbanka og síðar hjá öðrum fyrirtækjum. Sigrún hefur umfangsmikla reynslu af stjórnun mannauðs í gegnum þau stjórnendahlutverk sem hún hefur sinnt, auk þess hefur hún mikila reynslu af markaðs- og sölumálum, verkefnastjórnun og viðburðarstjórnun.  Hún er viðskiptafræðingur að mennt og er með meistarapróf í mannauðsstjórnun og stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur félagsins og vinnur að eflingu þess í samvinnu við stjórn félagsins.

„Við í stjórn Mannauðs erum virkilega ánægð með að vera búin að fá Sigrúnu í starf framkvæmdastjóra en hún hefur gríðarlega reynslu og þekkingu í þeim málaflokki sem félagsmenn okkar vinna í“ segir Brynjar Már Brynjólfsson formaður félagsins.

Ný stjórn mannauðs

Á aðalfundi Mannauðs var ný stjórn félagsins einnig kosin en hana skipa:

Brynjar Már Brynjólfsson, verkefnastjóri hjá Origo er formaður stjórnar

Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar er varaformaður stjórnar

Mrgrét Jónsdóttir, mannauðsstjóri Mountain Guides er gjaldkeri stjórnar

Hafsteinn Bragason, mannauðsstjóri Íslandsbanka, Ragna Margrét Norðdahl mannauðsstjóri Símans og Ásta Bjarnadóttir framkvæmdastjóri mannauðs á Landspítalanum eru meðstjórnendur.

 

Stjórn Mannauðs