Skip to main content
Category

Greinar

Hröð breyting á vinnumarkaði

By Greinar

Það eru mörg viðfangsefnin sem stjórnendur fyrirtækja og stofnana standa frammi fyrir þegar horft er til nánustu framtíðar á vinnumarkaði.   Ný  kynslóð, Z-kynslóðin, er að feta sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum, kynslóð sem hefur alist upp við tækni og vísindi allt sitt líf og talar tungumál sem eldri kynslóðir eiga erfitt með að skilja. Þessi kynslóð gerir aðrar kröfur og finnst sjálfsagt að jafnt einföld sem flókin verk séu unnin með hjálp tölvu, sjálfvirkni  eða einhvers konar tækni.  Margir óttast þessa þróun og telja að störfum komi til með að fækka þó líklegra sé að líkt og í fyrri tæknibyltingum muni sum störf hverfa en á sama tíma skapast ný.

Rannsókn mannauðsfélaganna á Norðurlöndunum
Þeir sem stafa að mannauðsmálum, bæði hér heima og erlendis hafa mikið rætt um og velt fyrir sér framtíð starfa.  Á Mannauðsdeginum, árlegri ráðstefnu félags mannauðsfólks á Íslandi var fjallað um þetta viðfangsefni út frá ýmsum sjónarhornum. Þá gerðu samtök mannauðsfólks á Norðurlöndunum og Íslandi (European Associasion for Personal Management) í samstarfi við Ernst og Young nýlega rannsókn meðal félagsmanna þar sem skoðað  var hvaða áskoranir það eru sem tæknivæðing framtíðarinnar mun aðallega hafa í för með sér.  Þær voru:
– Sjálfvirknivæðing starfa
– Sveigjanlegt og alþjóðlegt vinnuafl
– Breytingar í aldurssamsetningu vinnuafls
– Úrvinnsla gagna

Það kemur kannski ekki á óvart að sjálfvirknivæðing starfa var það sem flestir töldu vera eitt helsta viðfangsefnið.  Við sjáum nú þegar dæmi þess að tækni sé farin að leysa af hólmi verkefni sem mannshöndin sinnti áður. Í matvöruverslunum erlendis fer afgreiðslufólki á kassa fækkandi og sjálfsafgreiðslustöðvar orðnar æ meira áberandi.  Þá kannast allir við að innritunarborðum í flugstöðvum fer fækkandi og farþeginn sér sjálfur um að innrita sig og farangurinn sinn.

Það sem kemur  á óvart er að aðeins 44% þeirra sem tóku þátt í könnuninni telja fyrirtækið sitt tilbúið til þess að takast á við þessa sjálfvirknivæðingu.  66% svarenda telja sig því ekki tilbúna.  Þessir aðilar þurfa að vakna upp af svefninum og átta sig á að framtíðin er ekki lengur handan við hornið, hún er núna og því þarf að grípa til aðgerða.

Sveigjanleiki í starfi og alþjóðlegra vinnuafl er önnur stór áskorun.   Yngri kynslóðir hafa ekki sömu gildi og fyrri kynslóðir og  eru óhræddari við að taka að sér styttri verkefni og starfa skemur á hverjum stað, í stað þess að ráða sig á einn vinnustað og vinna þar alla sína ævi.  Reynslan sýnir að fyrirtæki muni í síauknum mæli nýta sér verktaka og lausráðið starfsfólk auk samvinnu við aðra aðila í samskonar iðnaði. Einungis þriðjungur taldi fyrirtækið sitt tilbúið fyrir þessar breytingar.

Þriðja áskorunin er breyting á aldurssamsetningu vinnuafls. Aldrei fyrr hafa eins margar kynslóðir verið saman á vinnumarkaði og með bættri heilsu og líðan er fólk tilbúið að starfa lengur sem kallar á fjölbreyttari kröfur.  Meiri hluti svarenda töldu fyrirtækin vera farin að taka tillit til þessarra ólíku þarfa. Hér á landi sjáum við þessa þróun vera að eiga sér stað og má nefna tilraunverkefnið um styttingu vinnuvikunnar sem er m.a. er ætlað að stuðla að jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Greining og úrvinnsla gagna er stór áskorun því eitt er að afla gagna en annað er að geta nýtt það forspárgildi sem getur falist í þeim.

Með nýrri tækni og breyttri samsetningu vinnuafls eru stórar breytingar á vinnumarkaði óhjákvæmilegar. Þetta er þó misjafnt eftir atvinnugreinum og almennt séð er vitund stjórnenda um þessar áskoranir sterk.   Niðurstaða rannsóknarinnar segir okkur þó að  fyrirtæki á Norðurlöndum virðast ekki vera tilbúin fyrir þessar breytingar og geta þeirra til þess að nýta sér þær og hagnast á þeim reyndist minni en vonast var til.

Brynjar Már Brynjólfsson, verkefnastjóri umbóta hjá Origo og formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi.

Sigrún Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi

#Metoo á þínum vinnustað

By Greinar

 Undanfarið hafa konur um allan heim deilt áhrifamiklum frásögnum um kynbundið ofbeldi, áreitni og misnotkun valds. Margar þessar frásagna eru lýsingar á atvikum sem hafa átt sér stað innan veggja fyrirtækja og stofnana.  Fyrirtæki eru mannanna verk, samfélög sem við búum til, þar verður til menning sem svo mótar þann sem inn í samfélagið kemur. Mannauðsfólki er menning fyrirtækja hugleikin, hvernig við mótum æskilega fyrirtækjamenningu eða hvernig við höfum áhrif á og breytum menningu.  Ef litið er yfir sviðið þá má ætla að flest, fyrirtæki hafi mótað sér jafnréttisstefnu, jafnréttisáætlun og viðbragðsáætlanir vegna kynferðislegrar áreitni og einelti. Einnig gera flest fyrirtæki reglulega kannanir og vinnustaðagreiningar þar sem starfsmenn eru spurðir að því hvort að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni, einelti eða ofbeldi eða hafi orðið vitni að slíku og niðurstöður eru kynntar og ræddar innan fyrirtækisins.  Flest fyrirtæki bjóða einnig  upp á reglulega fræðslu um hegðun og samskipti á vinnustað, einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, birtingarmyndir og  forvarnir. Allt þetta er gert til móta þá menningu sem við viljum hafa á vinnustaðnum og gera mögulegt að bregðast hratt og rétt við ef atvik sem þessi eiga sér stað.

Hvers vegna erum við ekki komin lengra ?

Mannleg hegðun er allskonar  og óformleg valdakerfi verða til innan fyrirtækja sem oft er erfitt er að átta sig á.  Oft er kynferðisleg áreitni hugsunarleysi og misheppnað grín sem fer yfir strikið. Það má þó ekki gera lítið úr áhrifum á þann sem fyrir því verður eða skrifa öll slík atvik á athugunarleysi eða misheppnaðan húmor því að ef það er eitthvað sem þessi samfélagsbylting kennir okkur, er að í mörgum tilvikum er um að ræða einbeittan brotavilja, valdníðslu, lærða hegðun eða aðferðafræði sem hefur að öllum líkindum nýst geranda vel, jafnvel um árabil. Að þagga niður í ákveðnum hópi, setja niður og gera lítið úr fólki með áreitni í formi kynferðislegra athugasemda, snertinga og kynbundinna alhæfinga.

Mannauðsstjórar hafa mikla reynslu af því að vinna úr áreitnismálum sem upp koma í fyrirtækjum. Þetta eru erfið mál, jafnvel þó að ferlar séu til staðar, þá reynist það þolendum oft erfitt að ræða áreitni, hvort sem um er að ræða viðvarandi áreitni eða einstakt tilfelli. Mannauðsstjórar  bera þó ekki einir ábyrgð á því að unnið sé faglega úr þeim málum sem upp koma. Hver og einn stjórnandi þarf að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni á starfsumhverfinu og öryggi starfsmanna. Atvinnurekendur þurfa að gefa skýr skilaboð að hegðun sem þessi sé ekki liðin og það er mikilvægt að stjórnendur fái þjálfun í að  taka faglega á þeim málum sem upp koma. Það er ekki síður mikilvægt að gera sér grein fyrir að starfsmenn leita til þeirra stjórnenda sem þeir telja sig geta treyst og það er ekkert alltaf gefið að sá aðili hafi farið í gegnum þjálfun.  Í þeim tilvikum  er mikilvægt að stjórnandinn taki á móti viðkomandi starfsmanni þ.e. að starfsmanninum sé ekki beint eitthvað annað af þeirri ástæðu að stjórnandi telji sig skorta reynslu af því að taka á áreitnismálum. Ef starfsmanni er vísað í burtu í fyrsta skipti sem hann opnar sig um áreitni eru allar líkur á að hann ræði það aldrei aftur.  Sama hversu óöruggir stjórnendur eru þegar kemur að því að ræða kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi þá er ein þumalfingursregla sem allir geta tileinkað sér og það er að hlusta.

Til þess að við getum upprætt það mein sem kynferðisleg áreitni á vinnustöðum er, þurfum við að eiga allskonar erfið samtöl um ýmsa óæskilega hegðun.  Þetta er tækifæri fyrir okkur öll að horfa í eigin barm, íhuga og skoða okkar eigin orð og hegðun. Þetta er líka tækifæri fyrir stjórnendur fyrirtækja til að raunverulega segja það og meina að svona hegðun verði ekki liðin, bregðast við og halda umræðunni lifandi þannig úr #metoo verði raunveruleg samfélagsbreyting.

 

Sigríður Elín Guðlaugsdóttir

Framkvæmdastjóri Mannauðs í Háskólanum í Reykjavík og félagsmaður í Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi.

 

Stjórnun breytinga – hvers vegna mistekst okkur?

By Greinar

Að leiða breytingar er vandasamt verk og er oft eitt af flóknari verkefnum sem stjórnendur fyrirtækja takast á við. Mikið hefur verið skrifað um breytingastjórnun síðastliðinn 50 ár og finna má tugi þúsunda bóka um það efni. En þrátt fyrir það mistekst fyrirtækjum oftar en ekki þegar kemur að breytingastjórnun.

Ein algengustu mistök sem gerð eru við breytingastjórnun er sú að þörfinni á breytingum er ekki komið nægilega skýrt á framfæri við þá sem breytingarnar varða. Fyrir því geta verið margrar ástæður og sem dæmi vanmeta stjórnendur oft á tíðum hversu erfitt getur verið að fá starfsmenn til að fara út fyrir þægindarammann. Stjórnendur geta jafnframt hræðst að opinbera veikleika fyrirtækisins hvort sem um er að ræða að verða undir í samkeppni,  tölvukerfið styðji ekki við starfsemina lengur eða að breytingar fela það í  sér að snúa þarf við fyrri ákvörðunum stjórnenda sem þeir standa vörð um. Til þess að breytingaferli gangi vel þarf opið og hreinskilið samtal um það hvers vegna nauðsynlegt er að gera breytingar og hvaða afleiðingar það geti möguleg haft að halda áfram í óbreyttri mynd.

Önnur algeng mistök er skortur á framtíðarsýn og jafnvel þó að framtíðarsýnin sé til staðar þá er henni ekki komið á framfæri við þá aðila sem breytingarnar snerta þ.e. starfsmanna sem oft þurfa að færa skammtímafórnir. Ef við höfum ekki skýra sýn á þá niðurstöðu sem við erum að stefna að þá munu stór breytingaverkefni fljótt breytast í lista af samhengislausum verkefnum t.a.m 360° matið frá mannauðsdeildinni, gæðaverkefnið í þjónustudeildinni og nýju ferlarnir í fjármáladeildinni verða eitthvað sem er heftandi og hindrandi frekar en virðisaukandi. Til eru dæmi um það að fyrirtæki hafa farið af stað með umbótaverkefni, undir því yfirskyni að ef farið er af stað með nógu mörg „rétt“ umbótaverkefni þá hljóti þau að skila sér í bættri frammistöðu fyrirtækisins. Gagnleg þumalfingursregla er að ef þú getur ekki lýst framtíðarsýninni á u.þ.b. 5 mínútum þannig að viðmælandi sýni skilning og áhuga þá þarf að huga betur að þeim hluta breytingarferlis.

Mannauðsstjórar og mannauðsdeildir hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að breytingastjórnun en ábyrgð á verkefninu þarf að vera skýr. Stór umbótaverkefni byrja oft á tíðum hjá einum eða tveimur aðilum innan fyrirtækis en til þess að breytingar nái fram að ganga þarf að virkja stuðningsmenn víða úr fyrirtækinu. Fyrirtæki þurfa að byggja upp hæfni stjórnenda sinna til að leiða breytingar. Það er ekki vænlegt til árangurs að úthýsa breytingastjórnun alfarið til mannauðsdeildar eða utanaðkomandi ráðgjafa.

Mikilvægur þáttur til að huga að er hvernig við miðlum upplýsingum til starfsmanna. Það eru algeng mistök að nýta sér eina til tvær aðferðir við upplýsingamiðlun t.d. upplýsingafundi og tölvupósta. Hér þarf að nýta fjölbreyttar leiðir til upplýsingamiðlunar, innrivef, fréttabréf, starfsmannasamtöl og óformlega tengslanetið innan fyrirtækisins og hvert tækifæri til að ræða á hvaða vegferð fyrirtækið er.

Þegar mikil vinna hefur verið lögð í breytingaverkefni er freistandi að lýsa yfir sigri og allar vísbendingar um að breytingarnar séu að skila árangri eiga það til að vera ofmetnar. Samskipti þeirra sem leiða breytingarnar og þeirra sem spyrna við fótum verða til þess að krafan um siguryfirlýsingu verður háværari og erfiðara verður að standast hana. Það er því mikilvæg að hanna inn í breytingaferlið kerfi þar sem smáum sigrum er fagnað en varast það að lýsa því yfir að verkefninu sé lokið. Breytingastjórnun er hvoru tveggja langhlaup og hindrunarhlaup á sama tíma.

Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Háskólanum í Reykjavík.