Skip to main content

Fimmtudaginn 24. maí sl., var haldin samnorræn ráðstefna um mannauðsmál í Helsinki sem bar yfirskriftina Future of work eða Framtíð starfa. Ellefu félagsmenn frá Mannauði gerðu sér ferð til Finnlands til að sækja ráðstefnuna og mynda tengsl við kollega okkar frá norðurlöndunum.

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um gervigreind og hvernig hún mun hafa áhrif á okkur á allra næstu misserum, rætt var um mikilvægi menningarlæsis og hversu nauðsynlegt það er að bera virðingu fyrir ólíkum hefðum og siðum og þá var einnig erindi um hvernig hanna eigi besta vinnustað í heimi.

Alls voru 150 mannauðsstjórar og sérfræðingar í mannauðsmálum frá Finnlandi, Noregi, Danmörku og Íslandi sem sóttu ráðstefnuna. Á milli erinda og í kvöldverði í lok dags gafst þátttakendum kostur á að efla tengslanet sín á milli.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og ráðstefna sem þessi er kjörinn vettvangur til að kynnast því hvað önnur fyrirtæki og aðrar þjóðir eru að fást við í mannauðsmálum. Íslenski hópurinn var ánægður með dagana í Helsinki og ekki síst með þann tíma sem nýttist utan ráðstefnunnar til að ræða málefni líðandi stundar yfir vínglasi eða kaffibolla.

Þetta var í annað sinn sem norrænu félögin halda sameiginlega ráðstefnu en hún var fyrst haldin í Noregi í janúar 2017.  Mannauður hefur nú tekið við keflinu og mun HR Summit 2019 vera haldin í Reykjavík föstudaginn 10. maí.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni: