Skip to main content

„Mannauðurinn er okkar mikilvægasta auðlind“ er setning sem æðstu stjórnendur fyrirtækja segja gjarnan á hátíðarstundum.

Sagt hefur verið að eigendur og æðstu stjórnendur fyrirtækja vilji bara hlusta á, og skilji best, séu staðreyndir sem settar eru fram í fjárhagslegu formi. Að þeir skilji kannski (upp að vissu marki) að fagleg mannauðsstjórnun skipti máli, en sá málaflokkur megi bara ekki kosta mikið. Þeir sjái ekki skýrt að fagleg mannauðsstjórnun skili fjárhagslegum ávinningi, því það getur stundum verið örlítið snúið að setja það fram í krónum og aurum.

Einnig hefur verið sagt að það sé minna mál þegar skipt er um fjármálastjóra en mannauðsstjóra, en það er auðvitað allt önnur og eldfimari umræða sem ekki verður farið í hér!

En hvað með að fara að horfa á mannauðinn með álíka augum og aðrar auðlindir við stjórnun reksturs. Ekki síst nú þegar það hversu vel fyrirtæki standa sig í samkeppninni um að laða og halda í gott starfsfólk getur haft mikil áhrif á niðurstöður rekstrarreikningsins.

Hér koma nokkrar tillögur sem gagnlegt gæti verið fyrir æðstu stjórnendur fyrirtækja, fjármálastjóra og mannauðsstjóra að skoða saman.

Tekjur, kostnaður og hagnaður á hvert stöðugildi

Skoðið tölur eins og tekjur, kostnað, EBITDA eða hagnað (og þá eingöngu af reglubundinni starfsemi), á hvert stöðugildi í fyrirtækinu. Berið þær saman á milli tímabila en líka við samkeppnisaðilana. Ef samanburðurinn er fyrirtækinu óhagstæður ætti að grafa dýpra og leita skýringa. Hvað er það á þínum vinnustað sem gæti valdið lægri tekjum og hærri kostnaði á hvert stöðugildi en er hjá samkeppnisaðilunum? Hverju þarf að breyta til að bæta niðurstöðurnar á milli ára eða bæta samanburðinn við samkeppnisaðilana?

Skoðið launakostnað í hlutfalli af tekjum eða rekstrarkostnaði og hlutfall launa stjórnenda af heildarlaunakostnaði og berið þessi hlutföll saman á milli tímabila og sjáið hvernig þróunin er, og bregðist svo við eins og tilefni er til.

Umbun fyrir árangursríka stjórnun

Algengt er að þegar góðir samningar eru gerðir að þá fái þeir sem koma að gerð þeirra einhverja fjárhagslega umbun.

Hvað með að umbuna fyrir góða stjórnun? Umbunið þeim stjórnendum sem starfsfólk treystir og lítur á sem fyrirmyndir. Umbunið stjórnendum eininga þar sem starfsfólk upplifir að það fái hvatningu og góða endurgjöf. Stjórnendum sem bregðast við málum eininga, hvort sem það er að búa til góða stemmingu fyrir árangri eða taka á ýmsum málum, s.s. verkferlum, samskiptum eða einstaka starfsmönnum.

Góðir stjórnendur geta haft mjög mikil áhrif til bætingar rekstrarniðurstaðna, til aukningar sölu, bættra gæða, bættrar nýtingu hráefna eða annað. Því skyldi ekki vanmeta góða stjórnun sem mikilvægan þátt í rekstrinum, og með því að tengja umbun fyrir góða stjórnun má fá meira af henni.

Þekking og þjálfun – Kostnaður eða fjárfesting?

Samkvæmt reikningsskilastöðlum skal bókfæra fjármuni sem varið er til að afla nýrrar þekkingar sem kostnað, en ekki sem fjárfestingu. Alla jafna eru þó nýjar auðlindir skráðar sem fjárfesting, og þá afskrifaðar á móti á ákveðnum tíma. Slíkt er s.s. ekki gert með þekkingu jafnvel þó fjármunum sé varið í að afla hennar og að hún úreldist, eða afskrifast á ákveðnum tíma.

Meðal annars vegna þessa eru fjármunir sem varið er til þekkingaröflunar og þjálfunar oftast það fyrsta sem skorið er niður þegar herða þarf að í rekstrinum. Jafnvel þó þá (oft er jú hert að í rekstri þegar minna er um nýsölu, ný verkefni o.s.frv.) væri heppilegt að nota tímann til að búa sig undir næstu tækifæri.

En jafnvel þó þessir reikningsskilastaðlar breytist ekki geta fyrirtæki og stjórnendur samt tamið sér aðra hugsun þegar kemur að fjármunum sem varið er til þekkingaröflunar og þjálfunar.

Hvað með að hugsa um þessa fjármuni sem fjárfestingu? Fjárfestingu sem hjálpar fyrirtækjum að þróast, skapa ný tækifæri, laða að og halda í hæft fólk o.fl.

Af þessum nokkru einföldu dæmum má sjá að eigendur og stjórnendur fyrirtækja ættu að fara létt með að skoða ýmsa fleti mannauðsstjórnunar í gegnum gleraugu króna og aura.

Og mannauðsfólk þá með sama hætti að ræða við aðra stjórnendur um málaflokkinn, til aukins árangurs, á þann hátt að það rími við aðra þætti sem helst er horft á í rekstrinum.

Herdís Pála Pálsdóttir.

Félagsmaður og fyrrverandi formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi

og áhugamanneskja um stjórnun og árangur