Skip to main content

Mannauðsdagurinn 2014 var haldinn í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 14. október.  Á deginum var fjallað um stjórnun mannauðs í uppsveiflu.

Árið 2014 var farið að sjá fyrir endann á þeirri niðursveiflu í íslensku efnahagslífi sem hófst með bankahruninu árið 2008. Á Mannauðsdeginum var fjallað um örar breytingar og áskoranir í mannauðsmálum hjá nokkrum íslenskum fyrirtækjum í kjölfar þess vaxtaskeiðs sem var að hefjast.

Á þriðja hundrað mannauðsstjóra og sérfræðinga í mannauðsmálum mættu á daginn.

Ketill Berg Magnússon

Framkvæmdastjóri Festu

Ketill Berg Magnússon starfar sem framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Hann er einnig stundakennari við Háskólann í Reykjavík.

Ketill var mannauðsstjóri Símans og Skipta í 12 ár og stundaði þar áður stjórnendaráðgjöf hjá Skref fyrir Skref. Hann hefur setið í stjórnum í ýmsum fyrirtækjum og félagasamtökum.

Ketill er með MA gráðu í heimspeki og MBA frá ESADE Business School.

Viðskiptasiðferði í nýrri uppsveiflu

Haraldur Líndal Pétursson

Forstjóri Johan Rönning

Haraldur Líndal Pétursson B.Sc. í alþjóðamarkaðsfræði og er forstjóri Johan Rönning hf. Haraldur hefur síðastliðin 10 ár starfað hjá Johan Rönning, fyrst sem þjónustustjóri, sölustjóri, framkvæmdastjóri frá 2005 og forstjóri frá árinu 2008.

Johan Rönning hefur hlotið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki ársins í árlegri vinnumarkaðskönnun VR frá árinu 2010 og Fyrirtæki ársins 2012, 2013 og nú síðast 2014 í hópi stærri fyrirtækja.

Hann mun upplýsa okkur um hvaða leyniuppskrift Johan Rönning notar á sitt starfsfólk til að auka starfsánægju þeirra.

Hvernig varð Johan Rönning fyrirtæki ársins?

Bjarte Bogsnes

VP Performance Management at Statoil

Bjarte Bogsnes hefur víðtæka alþjóðlega reynslu bæði á sviði fjármála og mannauðsstjórnunar. Hann er stjórnarformaður „Beyond Budgeting Round Table Europe (BBRT)“ og er eftirsóttur fyrirlesari á alþjóðavísu.

Bjarte hefur m.a. unnið til frumkvöðlaverðlauna Harvard Business Review og McKinsey á sviði nýsköpunar í stjórnun. Bjarte stýrir í dag innleiðingu á „Beyond Budgeting“ hjá Statoil, sem er stærsta fyrirtæki á Norðurlöndum með starfsemi í 33 löndum. Statoil er í fyrsta sæti á Fortune 500 listanum á sviði samfélagsábyrgðar og í sjöunda sæti á sama lista á sviði nýsköpunar.

Statoil hefur innleitt margvíslegar nýjungar í rekstri, til dæmis horfið frá hefðbundnum árlegum áætlunum og aukið áherslu á dreifingu ábyrgðar og snarpar og sveigjanlegar aðferðir.

The end of Performance Management (as we know it)

Bryndís Hlöðversdóttir

Starfsmannastjóri Landspítalans

Bryndís Hlöðversdóttir lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1992. Hún hefur starfað í dómsmálaráðuneytinu sem lögfræðingur Alþýðusambands Íslands og sat á Alþingi á árunum 1995-2005.

Hún tók við starfi deildarforseta lagadeildar Háskólans á Bifröst árið 2005, varð aðstoðarrektor við skólann árið 2006 og rektor frá árinu 2011. Bryndís hefur gegnt starfi starfsmannastjóra Landspítala frá árinu 2013. Auk þess hefur Bryndís setið í fjölda stjórna og meðal annars gegnt stjórnarformennsku í Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur.

Landspítali – vinnustaður á krossgötum

Helga Árnadóttir

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur (Cand. Oecon) frá Háskóla Íslands árið 1997 og lauk MS prófi í fjármálum (MSIM) frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008.

Á árunum 2008-2011 starfaði hún sem sviðsstjóri rekstrar- og fjármálasviðs VR. Áratuginn þar á undan starfaði Helga hjá Icelandair, fyrst í hagdeild en lengst af á sölu- og markaðssviði félagsins m.a. sem sölu- og markaðsstjóri á Íslandi og síðar sem forstöðumaður Vildarklúbbs félagsins. Þá hefur Helga setið í ýmsum stjórnum, nefndum og ráðum fyrirtækja og félagasamtaka.

Vöxtur og vaxtaverkir í ferðaþjónustu

Bergþóra Benediktsdóttir

Mannauðsstjóri hjá Plain Vanilla

Bergþóra Benediktsdóttir ólst upp á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands en nam einnig málvísindi og sálfræði við skólann. Hún hóf snemma að starfa við hótel.

Bergþóra gegndi starfi forstöðumanns gistisviðs hjá Radisson Blu Hótel Sögu, rak sumarhótel Hótel Eddu og bjó nýlega í Suður-Frakklandi þar sem hún stýrði hóteli í Cannes. Hún flutti aftur heim til Íslands um síðustu áramót og tók þá við starfi mannauðsstjóra hjá Plain Vanilla.

Bergþóra hefur sinnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, m.a. í Stúdentaráði HÍ og stjórn sömu samtaka. Hún situr í stjórn Félagsstofnunar Stúdenta.

Menning, hvatning og starfsánægja á hröðu vaxtaskeiði

Þóranna Jónsdóttir

Forseti viðskiptafræðideildar HR

Þóranna hefur verið forseti viðskiptadeildar við Háskólann í Reykjavík frá árinu 2013 en áður var hún framkvæmdastjóri stjórnunar og rekstrar við skólann.

Á árunum 2005-2011 starfaði hún sem framkvæmdastjóri hjá Auði Capital og hjá Vistor/Veritas Capital hf. og fyrir þann tíma sem lektor, forstöðumaður og stjórnendaráðgjafi við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Þóranna er með doktorsgráðu (DBA) á sviði stjórnarhátta frá Cranfield University í Bretlandi, MBA gráðu frá IESE í Barcelona og meistaragráðu í lyfjafræði frá Háskóla Íslands, auk þess að hafa lokið prófi til löggildingar í verðbréfamiðlun. Þóranna hefur talsverða reynslu af stjórnarsetu, situr m.a. í stjórnum Íslandsbanka og Kaupáss, og hefur víða haldið erindi á fundum og ráðstefnum um viðskiptatengd málefni.

Árangur frá X – Z – að hvetja ólíkar kynslóðir í uppsveiflu og ólgusjó

Herdís Pála Pálsdóttir

Framkvæmdastjóri mannauðs og samkipta hjá RB

Herdís Pála Pálsdóttir hefur starfað við mannauðsmál frá árinu 2000 en þá lauk hún MBA-námi í Bandaríkjunum, með áherslu á mannauðsstjórnun. Hún er einnig alþjóðlega vottaður markþjálfi.

Hún starfar sem framkvæmdastjóri Mannauðsmála og samskipta hjá Reiknistofu bankanna en fyrri störf hennar eru m.a. fyrirlesari, ráðgjafi og markþjálfi hjá herdispala.is, framkvæmdastjóri Þróunar og reksturs hjá Byr hf., fræðslustjóri og deildarstjóri Þekkingar og þróunar hjá Íslandsbanka og Mannauðsráðgjöf hjá IMG (nú Capacent).

Herdís er áhugamanneskja um „Self-leadership“, orkustjórnun, virkni, mannauðsmælingar og eflingu millistjórnenda, en það telur hún vera hagkvæmustu leiðina að auknum árangri vinnustaða.

Breytingar og þróun menningar hjá RB

Jensína Kristín Böðvarsdóttir

Framkvæmdastjóri Þróunar og Mannauðs hjá Landsbankanum

Fundarstjóri