Árið hefur verið viðburðaríkt og hefur Flóra staðið fyrir viðburðum af ýmsu tagi. Við byrjuðum árið eins og undanfarin ár á aðalfundi, þar sem stjórn félagsins var kjörin, í apríl þegar útlit var fyrir að til verkfalla gæti komið veltum við fyrir okkur ástandinu á vinnumarkaði og yfirvofandi verkföllum og stóðum við fyrir félagsfundi sem bar nafnið „Órói á vinnumarkaði“. Fengum til okkar Ragnar Árnason lögfræðing SA og Sigurð Ólafsson Framkvæmdastjóra mannauðssvið ISAVIA til að ræða verkföll, skipulag og viðbrögð við þeim. Í maí fjölluðum við um markaðslaun, fengum til okkar aðila frá PwC til að fjalla um markaðslaun, jafnlaunagreiningu og launaleiðréttingarlíkan PwC. Baldur G. Jónsson, mannauðsstjóri Landsbankans talaði um reynslu sína af notkun launagreininga í tengslum við launasetningu og launaákvarðanir.
Við hófum svo dagskrá haustsins með morgunverðarfundi þar sem við fjölluðum um Beyond Budgeting og hvernig vönduð mannauðsstjórnun getur stutt við árangursríka innleiðingu. Við fengum til okkar tvo gesti sem fluttu framsögu á þeim fundi, en það voru þeir Axel Úlfarsson, sérfræðingur hjá Össuri og Jón Brynjar Ólafsson mastersnemi sem kynnti niðurstöður mastersriðgerðar sinnar sem fjallaði um innleiðingu á Beyond Budgeting.
Í október var metnaðarfullur og vel heppnaður mannauðsdagur undir yfirskriftinni „Breytingastjórnun – Eru allir um borð“. Mannauðsdagurinn er rósin í hnappagati Flóru og það er okkur kappsmál að bjóða upp á flottasta mannauðsviðburð ársins og hefur dagurinn vaxið og dafnað ár frá ári. Enn eitt metið var slegið í mætingu í ár, en það komu yfir 300 gestir á mannauðsdaginn sem var ákaflega vel heppnaður. Í desember var svo jólafundur Flóru og þar var farið yfir spennandi hluti er snúa að samvinnu Flóru við mannnauðsfélög á norðurlöndunum, sameiginlega norræna ráðstefnu sem markmiðið er að halda árlega, sameiginlega norræna spurningakönnun um stöðu mannauðsstjórnunar á norðurlöndum og þátttöku Flóru í EPAM (European People management Association).