Starfsmannamál fyrirtækja hafa þróast hratt undanfarna áratugi og hafa breyst frá því að vera starfsmannahald þar sem fyrst og fremst var lögð áhersla á að lágmarka kostnað við starfsmannahald, túlkun á kjarasamningum og útborgun launa yfir í faglega mannauðsstjórnun þar sem litið er á mannauðinn sem órjúfanlegan part af auðlindum fyrirtækja og stofnana.
Nær öll stærri fyrirtæki og stofnanir hér á landi hafa í dag starfandi starfsmanna- eða mannauðsstjóra eða í það minsta sérfræðinga sem sinna mannauðsmálum. Hlutverk þeirra geta vera misjöfn allt eftir eðli og stærð fyrirtækjanna. Þeir sem stýra mannauðsmálum eiga það þó allir sameiginlegt að hafa forræði yfir samræmdu verklagi þegar kemur að mannauðstengdum verkefnum á borð við ráðningar, vinnustaðakannanir, stjórnendaþjálfun, uppsagnir og starfslok.
Hlutverk okkar sem sinnum mannauðsmálum er fyrst og fremst að styðja við starfsmenn og aðstoða stjórnendur við að tryggja að faglega sé staðið að ákvörðunum sem lúta að mannauðnum í fyrirtækinu. Við höfum einnig það hlutverk að tryggja að starfsfólk fari eftir þeim skráðu og óskráðu reglum sem gilda í fyrirtækinu og að háttsemi og hegðun starfsmanna samræmist gildum og siðum þess.
Mannauðsstjórar eða aðrir sem starfa við málaflokkinn taka sjaldnast ákvarðanir upp á sitt einsdæmi um hvern skal ráða í tiltekið starf eða við hvern skal gera starfslok. Ákvörðunarvaldið liggur hjá stjórnendum en það er hlutverk okkar að tryggja að málefnalega sé staðið að þeim ákvörðunum og að faglega sé staðið að verki. Eins og gefur að skilja sýnist sitt hverjum hvað varðar verklag við slíkar ákvarðanir og getur upplifun einstaklinga af þeim gjörningum verið misjöfn.
Nær öll þau verkefni sem mannauðsfólk fæst við snerta ákveðnar persónur á einn eða annan hátt, hvort sem um er að ræða ráðningar, uppsagnir, ábendingar um einelti, kynferðislegt ofbeldi eða önnur starfsmannatengd mál. Eðli starfs okkar er því á þann veg að við getum ekki tjáð okkur um málefni einstakra aðila við aðra en hlutaðeigandi, enda værum við með því að brjóta þann trúnað sem er undirstaða starfs okkar. Mannauðsstjóri sem ræðir á opinberum vettvangi nöfn umsækjenda um tiltekið starf myndi fljótt missa allan trúverðugleika og fyrirtækið sem hann starfar hjá þar með traust sitt.
Að sama skapi getur Mannauðsstjóri ekki undir neinum kringumstæðum rætt um uppsagnir eða ástæður þeirra á opinberum vettvangi. Þetta kann að valda ákveðnum aðstöðumun í slíkum málum því einstaklingi sem sagt er upp störfum er í sjálfsvald sett hvort hann ræði sín mál opinberlega eða ekki, allavega ef ekki hefur verið gerður samningur um annað. Hafa ber því í huga að í umfjöllunum um slík málefni í fjölmiðlum heyrist eingöngu sjónarhorn annars aðilans þar sem ástæður og röksemdir fyrirtækisins, sem kunna að hafa verið málefnalegar og vel ígrundaðar eru sjaldan eða aldrei gerðar opinberar vegna reglna um trúnað og persónuvernd.
Á undanförnum misserum hefur verið fjallað um mannauðstengd mál bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og margir gagnrýnt hlutaðeigandi fyrirtæki og stofnun fyrir að svara ekki þeirri gagnrýni sem á þau eru borin. Eins og bent hefur verið á hér að framan þá geta fyrirtæki ekki svarað þeirri gagnrýni enda væri þá um alvarlegan trúnaðarbrest við starfsmenn að ræða. Starfsmenn verða að geta treyst því að þeirra persónulegu mál séu ekki rædd opinberlega.
Mannauður, er fagfélag þeirra sem starfa við mannauðsmál á Íslandi. Félagsmenn eru 270 talsins og koma þeir frá öllum geirum atvinnulífsins. Hlutverk félagsins er að efla fagmennsku á sviði mannauðsstjórnunar í þágu íslensks atvinnulífs. Það gerum við m.a. með greinarskrifum sem þessum þar sem við útskýrum eðli og inntak okkar starfa.
Brynjar Már Brynjólfsson, verkefnastjóri umbóta hjá Origo
Formaður Mannauðs, félags mannauðsstjóra á Íslandi