Skip to main content

Vinnumarkaðurinn er á fleygiferð, störfum er að fjölga og einnig er nokkuð um að fólk sé að færa sig á milli starfa. Það er því mikið um ráðningar í gangi og þá getur verið gott að hafa í huga máltækið „Í upphafi skyldi endinn skoða“.

Í gegnum ráðningarferli, og við undirskrift formlegs ráðningarsamnings, verður samhliða til annar óskrifaður samningur, hinn svokallaði sálfræðilegi samningur.

Hann inniber þær væntingar sem aðilar gera hvor til annars. Sé misræmi í þessum væntingum getur það leitt til riftunar ráðningarsamnings, að frumkvæði annars hvors aðilans.

Með breyttum tímum breytast væntingar, og þar með þessi gagnkvæmi sálfræðilegi samningur, sem þarf að vera í jafnvægi. Það er því góður tími núna til að uppfæra hugmyndir um hvað það er sem skiptir máli við að búa til góðan vinnustað árið 2016.

Nýlega hlustaði ég á mjög áhugaverðan fyrirlestur á netinu, frá erlendri fræðsluveitu, nokkuð sem ég mæli reyndar með við alla sem hluta af því að viðhalda og bæta við þekkingu sína. Í þessum fyrirlestri var mikið rætt um þennan sálfræðilega samning og hverjir eru helstu áhrifaþættir á hann í dag.

Nokkur af helstu atriðunum sem nefnd voru:

Þekktu fólkið þitt: Það er erfitt að mæta væntingum starfsfólksins þegar þú veist ekki hvað það vill. Legðu þig fram við að þekkja það, styrkleika þess, getu, hvernig það vinnur best, hvað hvetur það o.s.frv. Hafðu áhuga á því sem einstaklingum, en ekki bara sem vinnuafli. Einstaklingar hafa mismunandi þarfir og væntingar, ekki hugsa bara um að gera eins fyrir alla, mættu hverjum og einum þar sem hann er.

Hjálpaðu fólkinu þínu að blómstra: Aðstæður og umhverfi í vinnu hafa áhrif á heilsu fólks, líkamlega, andlega, félagslega o.fl. Skapaðu aðstæður þar sem fólki líður vel. Þar sem því langar til að leggja sig fram og ná árangri fyrir sig og fyrirtækið. Hvetjandi aðstæður geta líka dregið úr ýmsum kostnaði s.s. vegna veikinda og lítillar virkni. Hjálpaðu fólkinu þínu til að efla sig og þróa í starfi, en líka sem einstaklinga.

Vertu áhugaverður vinnustaður: Hæfileikaríkt fólk þarf ekki að vinna á leiðinlegum vinnustöðum, og fæst þeirra gerir það reyndar. Skapaðu vinnustaðarmenningu sem veitir þér samkeppnisforskot um gott fólk. Það langar öllum að vinna hjá eftirsóknarverðustu vinnustöðunum, þar sem starfar sterkt og samheldið keppnislið. Leikherbergin eru fín en það skiptir enn meira máli að fólk upplifi að það geti blómstrað sem fagfólk og einstaklingar.

Horfðu til framtíðar: Það hvað starfsfólk er tilbúið til að gera í dag mótast af því hvaða áhrif það telur að þetta muni hafa fyrir það, til framtíðar litið. Fyrirtæki sem leggja sig fram með starfsmanninum, um að búa til áhugaverða framtíð fyrir hann, ná því besta fram úr sínu starfsfólki. Það skiptir metnaðarfullt starfsfólk líka miklu máli að það hafi trú á að fyrirtækið eigi eftir að gera flotta hluti, og sé með góðan tilgang, til framtíðar litið.

Fagnið velgengni: Sá árangur sem næst og fær enga athygli er ekki líklegur til að verða endurtekinn. Gerið meira en minna úr afrekum starfsfólks. Það er mikilvægt að búa til þannig aðstæður að metnaðarfullt starfsfólk trúi því að það geti afrekað meira í núverandi starfi en það gæti annars staðar, þannig að því langi ekki til að vinna annars staðar. Skapið stemmingu fyrir sigrum og þá verða þeir fleiri.

Höfundur:
Herdís Pála
Fyrirlesari, kennari, ráðgjafi og markþjálfi

herdispala.com og brennidepill.is