Skip to main content
All Posts By

sigrun

Snýst ekki um hlátursköst og „hæfæv“ á göngunum

By Greinar

Inngrip með þremur jákvæðum hlutum, Pollýanna, styrkleikasamtöl og hugræn atferlismeðferð eru meðal atriða sem koma fram hjá mannauðstjórum fjögurra ólíkra fyrirtækja sem öll leggja áherslu á jákvæða sálfræði sem lið í uppbyggingu á vellíðan og ánægju starfsfólks. Jákvæð sálfræði nýtist ekki síst nú á tímum Covid en þó þarf að haga í huga að hamingjan er í okkar eigin höndum. Ánægt starfsfólk eru bestu meðmælendur vinnustaða.

Í gær og í dag fjallar Atvinnulífið á Vísi um það hvernig hægt er að nýta jákvæða sálfræði á tímum kórónufaraldurs. 

Í þessari þriðju grein af þremur voru viðmælendur dagsins beðnir um að svara eftirfarandi spurningu:

„Með hvaða hætti hefur það nýst ykkar vinnustað vel að vinna eftir aðferðarfræði jákvæðrar sálfræði og telur þú jákvæða sálfræði geta nýst vinnustöðum sérstaklega vel á tímum sem þessum?“

Rannsóknir styðja Pollýönnu

Ásdís Eir Símonardóttir hjá OR og formaður Mannauðs.VÍSIR/VILHELM

Ásdís Eir Símonardóttir vinnusálfræðingur og mannauðsráðgjafi hjá Orkuveitu Reykjavíkur: „Við þekkjum það flest að vera uppteknari af því að bæta veikleika okkar en þekkja og næra styrkleika okkar. Jákvæða sálfræðin einblínir hins vegar á að draga fram bestu eiginleika manneskjunnar og skoðar hugsanir, tilfinningar og hegðun fólks með áherslu á styrkleika í stað veikleika.

Það er ekki bara okkur Pollýönnunum sem finnst jákvæðni og áhersla á styrkleika borga sig, heldur sýna rannsóknir margvíslegan ávinning.

 

Það að hagnýta jákvæða sálfræði á vinnustað felur þó ekki í sér eintóm hlátursköst, „hæfæv“ á göngunum og almenna kátínu kátínunnar vegna. Við hjá OR samstæðunni höfum nýtt okkur jákvæða sálfræði við að ná árangri og byggja upp menningu þar sem starfsfólk er umbótasinnað, sér tækifæri frekar en vandamál og er óhrætt við að læra af mistökum.

 

Á tímum sem þessum þar sem við höfum þurft að gera gríðarlegar breytingar á vinnuumhverfinu og hvernig við nálgumst okkar daglegu verk hefur þetta hugarfar reynst lykill að árangri. Það að geta haldið í jákvæðnina þrátt fyrir óvissu og krefjandi aðstæður er alveg ótrúlega mikilvægt. Það reynir á þrautseigju starfsfólks og stjórnenda þessi misserin, og það er mikilvægt að sýna hvort öðru umhyggju og stuðning,“ segir Ásdís Eir en en Ásdís er einnig formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi.

Fólk ræðir styrkleikana sína reglulega

„Til að ná árangri hefur áherslan hjá okkur verið að horfa til hvernig megi nýta styrkleika fólks og þann fjölbreytileika sem felst í mannauðnum til að leysa viðfangsefni okkar. Það sem hefur gefist vel er að vefa markvisst styrkleikamiðaða nálgun inn í ferla og lykiláherslur í mannauðsmálum.

 

Þannig er það til dæmis fastur liður í reglulegum starfsmannasamtölum að fólk ræðir sína styrkleika, hvernig þeir nýtast í starfi og hvort það sé tækifæri til að nýta styrkleikana enn betur eða með öðrum hætti.

 

Þannig fókus höfum við líka í fræðslu- og starfsþróunarmálum þar sem áhersla er lögð á að efla fólk og styðja við vöxt starfsfólks og stjórnenda. Við trúum því að þannig búum við til vinnuumhverfi þar sem fólk er framsýnt, meira skapandi og tilbúið að takast á við áskoranir og breytingar. Undanfarin ár höfum við líka lagt áherslu á að þjálfa fólk í þrautseigju og seiglu, enda sýna rannsóknir að slíkt hefur jákvæð áhrif á líðan og virkar sem forvörn gegn streitu og kulnun.

Ég tel svo styrkleikamiðaða nálgun gríðarlega mikilvæga þegar kemur að því að nýta tækifæri framtíðarinnar. Hjá OR samstæðunni höfum við farið í markvissa greiningarvinnu með starfsfólki, sem auðvitað þekkir sín störf best, til að kortleggja hvernig hlutirnir gætu breyst með þeim gríðarlegu tækniframförum sem eru í gangi og aukinni sjálfvirknivæðingu. Þannig höfum við saman greint allskonar tækifæri og starfsfólk fengið vettvang til að kafa ofan í hvað framtíðin ber í skauti sér og hvernig styrkleikar viðkomandi passa inn í það,“ segir Ásdís Eir.

Lærum af árangri og af mistökum

Hafsteinn Bragason, Íslandsbanka.VÍSIR/VILHELM

Hafsteinn Bragason mannauðstjóri Íslandsbanka:

„Fyrir mér er jákvæð sálfræði að leggja áherslu á heilbrigði, árangur og ánægju starfsmanna. Að beina sjónum að því sem við erum gera vel og hvernig við getum lært af reynslunni er sú menning sem við reynum stuðla að hjá Íslandsbanka.

Af hverju gekk þetta verkefni vel? Hvernig getum við lært af því og yfirfært árangur á fleiri verkefni? Við leggjum áherslu á það sem gengur vel og lærum af því og auk þess reynum við að læra af þeim mistökum sem við gerum.

Við erum ekkert feimin við að prófa okkur áfram og gera mistök, svo framarlega sem við lærum af þeim,“ segir Hafsteinn.

HAM á sérstaklega við á tímum Covid

„Fræðsla, „tékk-inn samtöl, stjórnendaefling, verkefnamiðuð vinnuaðstaða og önnur tæki mannauðsstjórnunar miða að því að efla og þróa starfsmann til sjálfstæðra vinnubragða. Við trúum því líka að með því að einblína á styrkleika starfsfólks í okkar störfum þá farnast starfsmönnum betur í leik og starfi.

Sem dæmi höfum við boðið upp á „styrkleikasamtal“ þar sem meðal annars er rætt hvenær starfsmenn hafa verið upp á sitt besta undanfarna mánuði, hvaða verkefni hafa gengið vel og af hverju, hvernig starfsmaður hefur vaxið og þróast í starfi sínu og hvaða styrkleika viðkomandi hefur nýtt til að takast á við áskoranir.

Jákvæð og uppbyggileg sálfræði á alltaf við og ekki síður á tímum Covid.

Við höfum lagt sérstaka áherslu á reglulegt uppbyggjandi upplýsingaflæði sem hefur jákvæð áhrif á líðan starfsfólks.

 

Ég myndi síðan vilja bæta við að hugmyndafræði hugræna atferlisfærði, HAM, á sérstaklega vel við í dag. Að okkur líður eins og við hugsum. Það eru ekki aðstæður sem hafa áhrif á líðan okkar og hegðun, heldur hvernig við túlkum þessar aðstæður. Þess vegna virkar jákvæð uppbyggileg hugsun þegar tekist er á við áskoranir.

 

Að að vera lausnamiðaður og einbeita sér að því sem maður hefur stjórn á hefur jákvæð áhrif á líðan okkar og heilsu. Við höfum reynt að koma þessu á framfæri við okkar starfsfólk á þessum Covid tímum,“ segir Hafsteinn.

Allir þrá að vera heilbrigðir og hraustir

Leifur Geir Hafsteinsson, Völku.

Leifur Geir Hafsteinsson, mannauðs- og fræðslustjóri Völku:

„Valka er nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir brautryðjandi hátæknilausnir fyrir framsækin fyrirtæki í sjávarútvegi. Vinnustaðurinn samanstendur af heillandi mannlífsflóru forritara, sölumanna, málmiðnaðarmanna, verkfræðinga, rafvirkja, verkefnisstjóra, vélstjóra og fleiri skemmtilegra hópa. Þessir hópar vinna ólík störf, hafa ólíkan bakgrunn, hafa stundum ólíkar hugmyndir um hvernig vinnustaðir eigi að vera og ólíkar áherslur varðandi tilhögun vinnu.

Það sem hefur reynst okkur vel hjá Völku er að halda því á lofti og gera að kjarna mannauðsstefnu okkar að það sem allt þetta ólíka fólk á sameiginlegt er að við erum öll manneskjur.

 

Við þráum öll að vera heilbrigð og hraust, viljum að við séum metin að verðleikum, viljum vinna við áhugaverð og krefjandi verkefni í sanngjörnu umhverfi, viljum öll standa okkur vel á öllum vígstöðvum, viljum gera það sem við erum góð í, viljum finna hlýju og samkennd þegar við mætum í vinnuna og við höfum öll okkar hugmyndir um æskilegt jafnvægi í lífinu.

 

Hornsteinar jákvæðrar sálfræði snúast um hamingju, velferð og heilbrigði manneskjunnar og þó Valka byggi ekki mannauðsstefnu sína með beinum eða meðvituðum hætti á jákvæðri sálfræði, er skörunin bæði augljós og mikil,“ segir Leifur.

Hamingjan í okkar höndum á tímum Covid

„Valka hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár, úr 30 starfsmönnum í um 100 á undir þremur árum. Ein helsta áskorunin sem fylgir slíkum vexti er að ná að varðveita frumkvöðlamenninguna, sköpunarkraftinn og þá nánu tengingu við fyrirtækið sem starfsmenn í litlum nýsköpunarfyrirtækjum upplifa svo oft.

Áherslan á það sem sameinar okkur, á velferð og heilbrigði manneskjunnar hefur reynst okkur afar vel í að viðhalda orku, sköpun, samheldni og gleði á vinnustaðnum.

Ánægt starfsfólk er besti meðmælandi vinnustaða og í harðri samkeppni á vinnumarkaði um bestu iðnaðarmennina, forritarana og verkfræðingana höfum við verið svo lánsöm að undanförnu að margir áhugasamir og mjög hæfir umsækjendur sækja um lausar stöður. Sú samkeppnishæfni um hæft starfsfólk er líklega dýrmætasti „ytri“ ávinningur þess að leggja rækt við mannlegt og nútímalegt vinnuumhverfi.

Mikilvægustu skilaboð jákvæðrar sálfræði á COVID tímum eru líklega þau að svo lengi sem við og okkar nánustu erum heilbrigð er hamingja okkar og velferð að mestu leyti í okkar eigin höndum. Jú, aðstæður eru óvenjulegar, krefjandi og stundum hundleiðinlegar, en við höfum val um að gera það skásta úr stöðunni sem er komin upp, nýta nýjar aðstæður til lærdóms og þroska, útvíkka getu okkar og aðlögunarhæfni og koma út úr COVID tímanum sterkari, fjölhæfari og þroskaðri en áður,“ segir Leifur.

Rannsókn á teymisvinnu Landhelgisgæslunnar

Svanhildur Sverrisdóttir, Landhelgisgæslan.VÍSIR/VILHELM

Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðstjóri Landhelgisgæslu Íslands:

„Nýlega lauk ég rannsókn á einkennum teymisvinnu hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og horfði þá meðal annars til þess hvað einkennir árangursrík teymi.

Viðfangsefni þyrlusveitarinnar eru krefjandi þar sem válynd veður, mannleg þjáning og erfiðar ákvarðanir í lífshættulegum aðstæðum eiga í hlut. Oftar en ekki kemur til kasta þyrlusveitarinnar þegar aðrar bjargir þrýtur.

 

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur skýrt fram að teymisvinna sem einkennist af trausti, jákvæðni, virðingu, auðmýkt og hvatningu er í huga þyrlusveitarinnar forsenda þess að hægt sé að fara af stað og ná árangri í svo krefjandi aðstæðum.

 

Þá kemur einnig fram að í teymisvinnu er mikilvægt að þekkja styrkleika allra í teyminu. Það skapar traust en gerir það líka að verkum að teymið er líklegra til að ná settu marki. Þetta er teymi því enginn getur þetta einn. Á þessum vettvangi höfum við nýtt okkur aðferðafræði jákvæðrar sálfræði og unnið markvisst með jákvætt hugarfar og styrkleika,“ segir Svanhildur.

Styrkleikaspjöld Eddu Björgvinsdóttur

Í vinnu okkar með starfsfólki Landhelgisgæslunnar í tengslum við styrkleika höfum við nýtt okkur styrkleikaspjöld sem Edda Björgvinsdóttir leikkona gaf út en þau eru einstaklega falleg og auðveld í notkun. Þessi spjöld notaði ég talsvert í námi mínu í jákvæðri sálfræði. Það þéttir teymið og eykur gæði samskipta að þekkja og tilgreina styrkleika samstarfsfélaganna. Það hefur verið áhugavert og skemmtilegt að sjá hversu vel þessi aðferðafræði jákvæðrar sálfræði á við, óháð samsetningu teymisins. Við höfum notað þetta í teymum þar sem karlmenn eru í meirihluta en einnig þar sem konur eru í meirihluta. Þessi vinna hefur í öllum tilfellum gefist vel. Það er mikilvægt að stjórnendur séu meðvitaðir um styrkleika starfsmanna og veiti þeim tækifæri til að nýta þá og næra. Með því móti eru meiri líkur á starfsánægju, vinnugleði og að starfsmenn blómstri í starfi.

Á námskeiðum sem ég hef haldið fyrir meðal annars starfsfólk okkar á varðskipum og í stjórnstöð höfum við unnið með jákvæða inngripið þrír góðir hlutir. Það felst í því að rifja upp til dæmis í lok vinnudagsins þrjá góða hluti eða atburði sem áttu sér stað yfir daginn og þá aðild sem starfsmaðurinn sjálfur átti að þeim góða hlut. Þetta eru atriði sem hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif á viðkomandi. Gjarnan eru þetta litlu atriðin sem við veitum ekki alltaf athygli. Hins vegar þegar starfsfólk fer að velta þeim fyrir sér sést oftar en ekki að jákvæðu þættirnir eru mun fleiri en við gerum okkur grein fyrir. Þessi æfing eflir jákvæðar tilfinningar sem hafa áhrif á hamingju og vellíðan,“ segir Svanhildur.

86% mannauðsfólks telur kórónufaraldur gera vinnustaði sterkari

By Greinar

„Á næstu vikum og mánuðum verður það mikilvægt mannauðsmál að búa til aðstæður á vinnustaðnum sem styðja við sveigjanleika starfsfólks, þrautseigju og sálfræðilegt öryggi,“ segir Ásdís Eir Símonardóttir formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi. Hún segir forsendu árangurs vera skapandi og umbótasinnað starfsfólk og þar sem traust er lykilatriði vinnuumhverfi þar sem traust ríkir milli fólks.

Ásdís segist ánægð með hversu hratt og vel mannauðsfólk brást við breyttum aðstæðum og óvissu í tengslum við kórónufaraldurinn vel tókst til hjá mannauðsstjórum og sérfræðingum að bregðast við kórónufaraldrinum. „Eins fyllti það mig bjartsýni að 86% mannauðsfólks telji að lærdómur af COVID-19 muni gera vinnustaðinn sterkari og 83% mannauðsfólks telji að starfsfólks sjái tækifæri fyrir umbætur, breytingar eða nýjungar í þeim aðstæðum sem COVID-19 hefur skapað,“ segir Ásdís og vísar þar til kannana sem Gallup gerði fyrir félagið í mars og apríl.

Í dag er Alþjóðlegi mannauðsdagurinn og af því tilefni mun Atvinnulífið á Vísi fjalla um mannauðsmál frá ýmsum hliðum í dag, s.s. niðurstöður úr könnunum, strauma og stefnur og lærdóm þeirra sem staðið hafa í mikilli breytingastjórnun.

Í þessari annarri grein af þremur í greinaröð dagsins er rætt við Ásdísi Eir Símonardóttur formanns Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi. Ásdís Eir hefur starfað sem mannauðssérfræðingur hjá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 2016 en áður starfaði hún sem sérfræðingur á mannauðssviði Tollstjóra. Ásdís Eir er með MS-gráðu í vinnusálfræði frá Háskóla Íslands og BS-gráðu í sálfræði.

Telur þú að Covid-19 muni breyta einhverjum áherslum í mannauðsmálum vinnustaða og ef já, þá hvernig?

„Ég held að það sé engin spurning. Kórónaveiran hefur hraðað einni stærstu umbreytingu atvinnulífsins síðustu áratugi. Allt í einu þurfti mikill meirihluti starfsfólks að aðlaga sig fjarvinnu og tileinka sér nýja tækni til samskipta, samhliða því að hlúa að andlegri heilsu og berjast við jafnvægi vinnu og einkalífs á fordæmalausum tímum.

 

En áhrifin sem kórónaveiran hefur á vinnustaði snúa ekki bara að fjarvinnu og því hvaðan við sinnum vinnunni okkar, heldur hefur hún einnig áhrif á hvað við gerum og hvernig við nálgumst ólík hlutverk.

 

Getur þessi hópur starfsfólks kannski nýst í öðrum verkefnum tímabundið?

Getum við nýtt færni starfsfólks þvert á fyrirtækið í þeim verkefnum sem mest liggur á hverju sinni?

Sveigjanleiki og aðlögunarhæfni starfsfólks hefur sjaldan verið mikilvægari en nú, og það er spennandi áskorun fyrir mannauðsfólk að styðja við þessa þróun.

 

Í tengslum við aukna fjarvinnu verður enn mikilvægara en áður fyrir mannauðsfólk að hlúa að vinnustaðamenningu og samheldni.

 

Einnig þarf að huga að fræðslu og stuðning við starfsfólk svo því líði vel, nái að skipuleggja tíma sinn í fjarvinnu og upplifi áfram tilgang í starfi sínu.

Mannauðsfólk mun leggja áherslu á að styðja við stjórnendur í breyttu hlutverki, en nú reynir á færni þeirra í að stýra dreifðum teymum, hvetja starfsfólk áfram, stuðla að samvinnu og því að við náum árangri í sitthvoru horninu.

 

Eiginleikar á borð við samkennd, þrautseigju og umhyggju verða hverjum stjórnanda nauðsynlegir.

 

Kórónaveiran hefur einnig haft þau áhrif að enn fleiri hafa áttað sig á mikilvægi þess að hlúa að vellíðan og velferð starfsfólks. Öryggi starfsfólks hefur verið í fyrirrúmi og mannauðsfólk hefur lagt áherslu á að hlúa að andlegri heilsu fólks á krefjandi tímum. Vinnustaður sem hlúir heildrænt að vellíðan starfsfólks uppsker betri frammistöðu og hugmyndir.

Áhersla á rafræna fræðslu í fyrirtækjum hefur einnig tekið stökk fram á við. Gerð rafræns efnis mun aukast verulega og mannauðsfólk mun leita sífellt fjölbreyttari leiða til að miðla þekkingu. Stjórnendur og starfsfólk þarf í síauknu mæli að geta nálgast hnitmiðaða fræðslu, hvar sem er og hvenær sem er, sem mun styðja við framþróun og sveigjanleika í starfi,“ segir Ásdís.

Ásdís segir mikilvægt næstu misseri að stjórnendur standi vel að upplýsingamiðlun og eins að hlusta vel á sitt fólk.VÍSIR/VILHELM

Hver eru mikilvægustu mannauðsmálin til að huga að næstu vikur og mánuði?

„Gagnkvæm upplýsingamiðlun verður lykillinn að árangri.

 

Stjórnendur þurfa að vera duglegir að miðla upplýsingum um þær ákvarðanir sem eru teknar og hvers vegna. Einnig þurfa þeir að vera enn duglegri að hlusta.

 

Viðhorfskannanir og mælingar á líðan starfsfólks geta veitt dýrmætar upplýsingar og eins þarf að hlúa að óformlegri leiðum fyrir starfsfólk til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Fyrir vinnuveitendur sem standa frammi fyrir erfiðum hagræðingaraðgerðum og uppsögnum, þá er mikilvægt að faglega sé staðið að slíku og fólki sýnd virðing.

 

Það hefur áhrif á orðspor fyrirtækis hvernig staðið er að uppsögnum, og vönduð vinnubrögð auka líkurnar á því að gott fólk vilji koma aftur til starfa þegar aðstæður breytast.

 

Eins skipta fagleg vinnubrögð á erfiðum tímum miklu máli fyrir starfsfólkið sem eftir situr.

Mannauðsfólk er í mikilvægu hlutverki við að hlúa að þeirri menningu á vinnustað, en umhyggjusamir stjórnendur sem setja fólk í forgang munu ná meiri árangri til langs tíma litið,“ segir Ásdís.

Hvaða niðurstöður komu þér á óvart, eða fannst þér athyglisverðastar, í könnun Gallup?

„Ég var fyrst og fremst ótrúlega stolt af mannauðsfólki sem hefur virkilega þurft að bregðast hratt við breyttum aðstæðum og óvissu.

 

Niðurstöður sýndu að mannauðsfólk setti fólk í forgang og hafði velferð starfsfólks, heilsu þess og öryggi að leiðarljósi.

 

Mér fannst athyglisvert að sjá að þrátt fyrir að mörg fyrirtæki hafa þurft að grípa til ýmissa hagræðingaraðgerða þá finnst 86% starfsfólks að aðgerðir síns vinnustaðar til að takast á við vandann hafa verið sanngjarnar,“ segir Ásdís.

Þá er hún sérstaklega ánægð með það viðhorf mannauðsfólks að 86% þeirra telji að lærdómurinn af kórónufaraldrinum muni gera vinnustaði sterkari og að 83% mannauðsfólk telji að starfsfólk sjái tækifæri fyrir umbætur, breytingar eða nýjungar í þeim aðstæðum sem kórónufaraldurinn hefur skapað.

 

Þessu viðhorfi þurfum við að hlúa sérstaklega að,“

 

segir Ásdís að lokum.

Heimilisofbeldi

By Viðburðir

Dagur: 17. nóvember 2020

Tími: 9:30-10:30

Rafrænn fundur.  Hlekkur sendur þegar nær dregur.

Geta fyrirtæki hjálpað starfsmönnum sem eru þolendur heimilisofbeldis og hvernig geta þau gert það?

Heimilisofbeldi hefur því  miður viðgengist alls staðar í heiminum alla tíð.
Þetta er ekki nýtt vandamál en gríðarlega stórt vandamál fyrir þolendur þess og fjölskyldur þeirra.
Með auknum tilkynningum til lögreglunnar undanfarna mánuði um heimilisofbeldi er mikilvægt fyrir atvinnurekendur að spyrja sig að því hvort þeir geti lagt sitt að mörkum til að hvetja og styðja þá starfsmenn sína sem eru þolendur heimilisofbeldis til þess að leita sér hjálpar.

Í fyrirlestrinum mun Adriana Karolina Pétursdóttir, leiðtogi starfsmannaþjónustu Rio Tinto ræða þetta vandamál og segja frá því hvernig þau hafa tekið á þessu vandamáli.

Skráning á viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Error: Contact form not found.

EAPM’s perspective on the impact of Covid-19 on HR and the workplace in Europe.

By Viðburðir

Dagur: 9. nóvember 2020

Tími: 11:00-12:00

Rafrænn fundur.  Hlekkur verður sendur síðar.

Lucas van Wees forseti EAPM (European Association for People Management)
ræðir við okkur um áhrif Covid-19 á HR og vinnustaði í Evrópu.
Lucas hefur starfað hjá stórfyrirtækjum eins Philips, Shell, KLM og KPN við stjórnun mannauðsmála og hefur gríðarlega mikla reynslu á þessu sviði.
Erindið hans heitir: „EAPM’s perspective on the impact of Covid-19 on HR and the workplace in Europe“.

Skráning á viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Error: Contact form not found.

Kynning á niðurstöðum The Nordic HR Survey 2020

By Viðburðir

Dagur: 7. október

Tími: 11:30-12:15

Rafrænn fundur í gegnum fjarfundabúnað

Morten Sars frá Ernst & Young AS kynnir niðurstöður norrænnu HR könnunarinnar sem við tókum þátt í ásamt hinum Norðurlöndunum í upphafi árs.
Morten ætlaði að koma til Íslands í vor en vegna COVID gekk það ekki.
Skýrslan heitir „THE NORDIC HR SURVEY 2020 – ADAPTING TO CHANGING DEMANDS AND OPPORTUNITIES“.

Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar og samanburður þessarra mála við hin Norðurlöndin líka.

Skráning á viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Error: Contact form not found.

Kjarasamingar og hagstjórn

By Viðburðir

Dagur: 29. október 2020

Tími: 9:30-10:30

Fjarfundur:  Hlekkur sendur þegar nær dregur.

Kjarasamningar og hagstjórn (frá sjónarhóli kapitalísks svíns)

Opinber umræða um kjarasamninga hér á landi er gjarnan í djúpum skotgröfum.  Orðræðan er gjarnan mjög tilfinningahlaðin og sterkum lýsingarorðum fleygt fram sem endurspegla lítt raunveruleikann á vinnumarkaði og á engan hátt hvernig kaupin gerast á eyrinni í samskiptum launafólks og fyrirtækja. Snúast kjarasamningar bara um græðgi vinnuveitenda eða óraunhæfar kröfur verkalýðsfélaga eða má mögulega finna einhvern skynsamari flöt á umræðunni?

Miklar sveiflur hafa einkennt íslenskan vinnumarkað alla tíð. Launahækkanir hafa verið umtalsvert meiri hér á landi en í nágrannalöndum okkar, verðbólga hærri og gengissveiflur meiri. Víxlhækkanir launa og verðlags voru viðvarandi efnahagslegt vandamál á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en með gerð Þjóðarsáttarinnar 1990 tókst að ná betri tökum á efnahagsástandinu. Ekki var þó ráðist í nauðsynlegar skipulagsbreytingar á íslenskum vinnumarkaði í tengslum við Þjóðarsáttarsamninginn og hefur verðbólga áfram verið mun meiri hér á landi undanfarna þrjá áratugi borið saman við hin Norðurlöndin.

Kerfisbundnir veikleikar í íslenska vinnumarkaðslíkaninu hafa leitt af sér meiri launahækkanir en fást staðist hér til lengdar og fyrir vikið leitt af sér hærri verðbólgu og meiri gengisstöðugleika en ella. Nauðsynlegt er að ráðast í nauðsynlegar umbætur í íslenska vinnumarkaðslíkaninu til að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika til lengri tíma.

Í fyrirlestrinum er reynt að varpa ljósi á kjarasamningaumhverfið og veikleika íslenska vinnumarkaðslíkansins frá sjónarhóli hagstjórnar. Tekinn er samanburður við önnur Norðurlönd og settar fram tillögur um mögulegar úrbætur.

Skráning á viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Error: Contact form not found.

Heilsufyrirlestur Röggu Nagla

By Viðburðir

Dagur: 11. nóvember 2020

Tími: 11:30

Staður: Rafrænn fyrirlestur

Í kjölfar COVID og þess álags sem það ástand hefur haft í för með sér  bæði hvað andlegt álag, hreyfingu og mataræði varðar og þess að framundan er aðventan og svo jólin með öllu tilheyrandi langar okkur að bjóða upp á smá heilsupistil frá Röggu Nagla sem allir þekkja og sem skefur ekki utan af hlutunum þegar heilsan á í hlut.

Ragga er sálfræðingur að mennt auk menntunar hennar og áralangrar reynslu  sem heilsu- og næringarráðgjafa og einkaþjálfara.

Skráning á rafrænan viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Error: Contact form not found.

Vinnustaðurinn eftir uppsagnir

By Viðburðir

Dagur: 17. september 2020

Tími: 9:3-0-10:30

Fjarfundur

Undanfarnar vikur hafa mörg fyrirtæki þurft að bregða á það ráð að segja upp fólki til að mæta þeim gífurlega samdrætti sem átt hefur sér stað í efnahagslífi þjóðarinnar eftir að heimsfaraldurinn skall á. Uppsögn er eins og gefur að skilja átakanlegur atburður sem kallar fram sterkar tilfinningar. Hún getur raskað þeirri mynd sem fólk hefur af veruleikanum og veldur oft flóðbylgju af tilfinningum: reiði, höfnun, streitu, biturð, doða, skömm, sorg ofl. Íslensk fyrirtæki hafa oftast hugað vel að þeim sem missa vinnuna með því að bjóða upp á áfallahjálp, sálfræðilegan stuðning og ráðgjöf varðandi atvinnuleit. Einnig hafa stéttarfélög veitt félagsmönnum sínum ráðgjöf og aðstoð. Hins vegar gleymist oft að huga að þeim sem eftir „lifa“ eða „sleppa“, svokölluðum „lay-off survivors“ eða eftirstarfendur. Þeim líður oft verulega illa og í mörgum tilfellum virðist næstum því jafn erfitt að lenda í uppsögn og að lifa hana af.

Þeir sem starfa við mannauðsmál í fyrirtækjum gegna lykilhlutverki við aðstæður sem þessar og ef einhvern tímann hefur verið þörf á að efla mannauðsdeildir þá er það núna. Aðalmarkmiðið, samhliða því að halda rekstri í fullum gangi, er að draga úr því tilfinningalega tjóni sem fylgir uppsögnum.

Fyrirlesari: Ingrid Kuhlman, MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar

Skráning á viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Error: Contact form not found.