Skip to main content

Stór fjöldi félagsmanna vinnur nú að innleiðingu jafnlaunakerfis til að öðlast jafnlaunavottun samkvæmt Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 eins og lög gera ráð fyrir. Á síðustu misserum hefur skapast mikil umræða meðal félagsmanna um misjafna framkvæmd vottunar eftir vottunaraðilum og hefur umræðan einna helst snúist að þeirri aðferðafræði sem BSI á Íslandi hefur viðhaft í sinni úttekt. Í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað á félagsfundi hjá VIRK fyrr í þessum mánuði sendi félagið meðfylgjandi fyrirspurn til Velferðaráðuneytisins varðandi stöðu þessara mála.

 

Reykjavík, 29 maí 2018

Velferðaráðuneytið,

Bt. Viðeigandi aðila

 

Efni: Fyrirspurn frá Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi varðandi jafnlaunavottun

 

Ágæti viðtakandi,

Eins og lög gera ráð fyrir er fjöldi fyrirtækja og stofnana þessa dagana að innleiða jafnlaunakerfi til að öðlast jafnlaunavottun samkvæmt Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Félagsmenn í Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi, sem ýmist eru mannauðsstjórar eða sérfræðingar í mannauðsmálum hjá fyrirtækjum og stofnunum hér á landi hafa á undanförnum vikum og mánuðum hist reglulega og borið saman bækur sínar hvað varðar verklag og framkvæmd þessarar vinnu.

Undanfarin misseri hafa verið miklar umræður meðal okkar félagsmanna um framkvæmd vottunar hjá þeim tveimur aðilum sem hafa heimild til að veita vottun hér á landi, Vottun hf., annars vegar og BSI á Íslandi hinsvegar. Hefur umræðan einna helst snúist að þeirri aðferðafræði sem BSI á Íslandi hefur viðhaft hvað varðar sína úttekt og framkvæmd þeirra á launagreiningu þar sem störf eru metin út frá log-ib aðferðafræðinni.

Okkur hafa borist óstaðfestar fréttir af því undanfarnar vikur að ráðuneytinu hafi borist kvartanir vegna framkvæmda BSI á jafnlaunagreiningum samkvæmt ofangreindri aðferðafræði, enda er slíkt á skjön við ákvæði sérstakra viðmiða fyrir vottunaraðila sem Velferðaráðuneytið gaf út í nóvember 2017 þar sem segir að Vottunaraðili eigi undir engum kringumstæðum að gera launagreiningu sjálfur heldur eingöngu sannreyna gæði hennar.

Þá höfum við einnig haft fregnir af því að ráðuneytið hafi verið með þessi mál til umfjöllunar og því hefur jafnvel verið fleygt fram að ráðuneytið hafi verið að skoða það að afturkalla leyfi BSI til vottunar.  Öll þessi umræða og sögusagnir valda ólgu meðal okkar félagsmanna, bæði þeirra sem nú þegar hafa fengið vottun frá BSI á Íslandi og ekki síður þeirra sem eiga eftir að fara í úttekt á næstu mánuðum og hafa nú þegar gert samning við BSI á Íslandi um framkvæmd þeirrar úttektar.

Það er ljóst að ef einhver fótur er fyrir þeim sögusögnum að ráðuneytið ætli að afturkalla leyfi BSI til vottunar þarf að grípa til einhverra aðgerða því þá stendur Vottun hf., uppi sem eini löggildi vottunaraðilinn hér á landi og það er ólíklegt að fyrirtækið hafi burði til að votta öll þau fyrirtæki sem þurfa lögum samkvæmt að öðlast vottun fyrir árslok.

Fyrir hönd félagsins og félagsmanna kalla ég eftir svörum frá ráðuneytinu um hver staða þessara mála er. Við í félaginu erum reiðubúin að eiga samtal við hlutaðeigandi aðila ef þess er óskað.

 

Virðingarfyllst,

Brynjar Már Brynjólfsson, formaður Mannauðs – félags mannauðsfólks á Íslandi