Category

Fréttir

Umræðufundur um nýgerða kjarasamninga.

By | Fréttir

Dagur: 6. maí 2019

Tími: 10:00-11:00

Staður:  Origo, Borgartún 37, Reykjavík.

Lýsing

Umræðufundur um nýgerða kjarasamninga.
Halldór Benjamín Þorbergsson og Ragnar Árnason hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) koma til okkar og kynna og ræða við okkur um nýgerða kjarasamninga.

Fundurinn verður í höfuðstöðvum Origo í Borgartúni og hefst kl. 10:00.

Skráning á viðburð

Vinsamlegast fyllið út í alla reiti

Fyrirspurn vegna jafnlaunavottunar

By | Fréttir

Stór fjöldi félagsmanna vinnur nú að innleiðingu jafnlaunakerfis til að öðlast jafnlaunavottun samkvæmt Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 eins og lög gera ráð fyrir. Á síðustu misserum hefur skapast mikil umræða meðal félagsmanna um misjafna framkvæmd vottunar eftir vottunaraðilum og hefur umræðan einna helst snúist að þeirri aðferðafræði sem BSI á Íslandi hefur viðhaft í sinni úttekt. Í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað á félagsfundi hjá VIRK fyrr í þessum mánuði sendi félagið meðfylgjandi fyrirspurn til Velferðaráðuneytisins varðandi stöðu þessara mála.

 

Reykjavík, 29 maí 2018

Velferðaráðuneytið,

Bt. Viðeigandi aðila

 

Efni: Fyrirspurn frá Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi varðandi jafnlaunavottun

 

Ágæti viðtakandi,

Eins og lög gera ráð fyrir er fjöldi fyrirtækja og stofnana þessa dagana að innleiða jafnlaunakerfi til að öðlast jafnlaunavottun samkvæmt Jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Félagsmenn í Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi, sem ýmist eru mannauðsstjórar eða sérfræðingar í mannauðsmálum hjá fyrirtækjum og stofnunum hér á landi hafa á undanförnum vikum og mánuðum hist reglulega og borið saman bækur sínar hvað varðar verklag og framkvæmd þessarar vinnu.

Undanfarin misseri hafa verið miklar umræður meðal okkar félagsmanna um framkvæmd vottunar hjá þeim tveimur aðilum sem hafa heimild til að veita vottun hér á landi, Vottun hf., annars vegar og BSI á Íslandi hinsvegar. Hefur umræðan einna helst snúist að þeirri aðferðafræði sem BSI á Íslandi hefur viðhaft hvað varðar sína úttekt og framkvæmd þeirra á launagreiningu þar sem störf eru metin út frá log-ib aðferðafræðinni.

Okkur hafa borist óstaðfestar fréttir af því undanfarnar vikur að ráðuneytinu hafi borist kvartanir vegna framkvæmda BSI á jafnlaunagreiningum samkvæmt ofangreindri aðferðafræði, enda er slíkt á skjön við ákvæði sérstakra viðmiða fyrir vottunaraðila sem Velferðaráðuneytið gaf út í nóvember 2017 þar sem segir að Vottunaraðili eigi undir engum kringumstæðum að gera launagreiningu sjálfur heldur eingöngu sannreyna gæði hennar.

Þá höfum við einnig haft fregnir af því að ráðuneytið hafi verið með þessi mál til umfjöllunar og því hefur jafnvel verið fleygt fram að ráðuneytið hafi verið að skoða það að afturkalla leyfi BSI til vottunar.  Öll þessi umræða og sögusagnir valda ólgu meðal okkar félagsmanna, bæði þeirra sem nú þegar hafa fengið vottun frá BSI á Íslandi og ekki síður þeirra sem eiga eftir að fara í úttekt á næstu mánuðum og hafa nú þegar gert samning við BSI á Íslandi um framkvæmd þeirrar úttektar.

Það er ljóst að ef einhver fótur er fyrir þeim sögusögnum að ráðuneytið ætli að afturkalla leyfi BSI til vottunar þarf að grípa til einhverra aðgerða því þá stendur Vottun hf., uppi sem eini löggildi vottunaraðilinn hér á landi og það er ólíklegt að fyrirtækið hafi burði til að votta öll þau fyrirtæki sem þurfa lögum samkvæmt að öðlast vottun fyrir árslok.

Fyrir hönd félagsins og félagsmanna kalla ég eftir svörum frá ráðuneytinu um hver staða þessara mála er. Við í félaginu erum reiðubúin að eiga samtal við hlutaðeigandi aðila ef þess er óskað.

 

Virðingarfyllst,

Brynjar Már Brynjólfsson, formaður Mannauðs – félags mannauðsfólks á Íslandi

 

Vel heppnuð ferð til Finnlands

By | Fréttir

Fimmtudaginn 24. maí sl., var haldin samnorræn ráðstefna um mannauðsmál í Helsinki sem bar yfirskriftina Future of work eða Framtíð starfa. Ellefu félagsmenn frá Mannauði gerðu sér ferð til Finnlands til að sækja ráðstefnuna og mynda tengsl við kollega okkar frá norðurlöndunum.

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um gervigreind og hvernig hún mun hafa áhrif á okkur á allra næstu misserum, rætt var um mikilvægi menningarlæsis og hversu nauðsynlegt það er að bera virðingu fyrir ólíkum hefðum og siðum og þá var einnig erindi um hvernig hanna eigi besta vinnustað í heimi.

Alls voru 150 mannauðsstjórar og sérfræðingar í mannauðsmálum frá Finnlandi, Noregi, Danmörku og Íslandi sem sóttu ráðstefnuna. Á milli erinda og í kvöldverði í lok dags gafst þátttakendum kostur á að efla tengslanet sín á milli.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og ráðstefna sem þessi er kjörinn vettvangur til að kynnast því hvað önnur fyrirtæki og aðrar þjóðir eru að fást við í mannauðsmálum. Íslenski hópurinn var ánægður með dagana í Helsinki og ekki síst með þann tíma sem nýttist utan ráðstefnunnar til að ræða málefni líðandi stundar yfir vínglasi eða kaffibolla.

Þetta var í annað sinn sem norrænu félögin halda sameiginlega ráðstefnu en hún var fyrst haldin í Noregi í janúar 2017.  Mannauður hefur nú tekið við keflinu og mun HR Summit 2019 vera haldin í Reykjavík föstudaginn 10. maí.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni:

 

Fréttatilkynning frá Mannauði

By | Fréttir

Sigrún Kjartansdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi en félagið hefur það hlutverk að efla fagmennsku mannauðsstjórnunar í þágu íslensks atvinnulífs.

Uppruna félagsins má rekja til klúbbs starfsmannastjóra sem stofnaður var á tíunda áratugnum sem síðar þróaðist yfir í félag fyrir alla mannauðsstjóra hér á landi. Frá árinu 2015 hefur félagið verið fagfélag allra þeirra sem starfa sem mannauðsstjórar eða sérfræðingar við mannauðsmál hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum.

Markmið félagsins er að efla fagmannesku í mannauðsstjórnun á Íslandi með virkri þátttöku í umræðu um mannauðsmál. Félagsmenn eru á þriðja hundrað og fer ört fjölgandi.

Sigrún býr yfir áralangri reynslu af stjórnun og rekstri en hún starfaði lengi sem stjórnandi hjá Íslandsbanka og síðar hjá öðrum fyrirtækjum. Sigrún hefur umfangsmikla reynslu af stjórnun mannauðs í gegnum þau stjórnendahlutverk sem hún hefur sinnt, auk þess hefur hún mikila reynslu af markaðs- og sölumálum, verkefnastjórnun og viðburðarstjórnun.  Hún er viðskiptafræðingur að mennt og er með meistarapróf í mannauðsstjórnun og stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur félagsins og vinnur að eflingu þess í samvinnu við stjórn félagsins.

„Við í stjórn Mannauðs erum virkilega ánægð með að vera búin að fá Sigrúnu í starf framkvæmdastjóra en hún hefur gríðarlega reynslu og þekkingu í þeim málaflokki sem félagsmenn okkar vinna í“ segir Brynjar Már Brynjólfsson formaður félagsins.

Ný stjórn mannauðs

Á aðalfundi Mannauðs var ný stjórn félagsins einnig kosin en hana skipa:

Brynjar Már Brynjólfsson, verkefnastjóri hjá Origo er formaður stjórnar

Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar er varaformaður stjórnar

Mrgrét Jónsdóttir, mannauðsstjóri Mountain Guides er gjaldkeri stjórnar

Hafsteinn Bragason, mannauðsstjóri Íslandsbanka, Ragna Margrét Norðdahl mannauðsstjóri Símans og Ásta Bjarnadóttir framkvæmdastjóri mannauðs á Landspítalanum eru meðstjórnendur.

 

Stjórn Mannauðs

Ályktun frá félagi mannauðsfólks

By | Fréttir

Félag mannauðsfólks á Íslandi, fagnar opnun umræðunnar um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar af öðrum vettvangi undanfarið.

Mannauðsstjórar þekkja efnið vel en þetta er eitt af viðkvæmustu verkefnum þeirra sem starfa við mannauðsmál hjá fyrirtækjum og stofnunum.

Félag mannauðsfólks leggur áherslu á að unnið sé mjög faglega úr þessum málum og af festu.

Mannauðsstjórar og sérfræðingar í mannauðsmálum eru tilbúin að taka þátt í umræðunni, bæði til að leggja málefninu lið, varpa ljósi á stöðuna á vinnumarkaði og þau úrræði sem notuð eru.

Umræðan getur án vafa hjálpað þeim sem hafa lent í kynferðilegu áreiti eða kynbundnu ofbeldi til að stíga fram og láta vita af því.

Sigrún Kjartansdóttir ráðin verkefnastjóri Flóru

By | Fréttir

Sigrún Kjartansdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri hjá Flóru, Félagi mannauðsfólks á Íslandi frá 1. október n.k. Ráðið er í starfið til næstu 6 mánaða með möguleika á framlengingu. Hlutverk verkefnastjóra er að annast allan daglegan rekstur félagsins ásamt því að vinna að framkvæmd nýrrar stefnu sem stjórn vann út frá niðurstöðum af vinnufundi félagsmanna sem haldinn var á Hilton Hóteli í maí sl.

Sigrún býr yfir áralangri reynslu af stjórnun og rekstri en hún hefur starfað sem stjórnandi hjá Íslandsbanka og Sjóvá, auk þess að búa yfir stjórnunarreynslu úr heilsu- og ferðageiranum. Sigrún hefur umfangsmikla reynslu af viðburðarstjórnun, verkefnastjórnun og stjórnun mannauðs í gegnum stjórnendahlutverk sem hún hefur sinnt. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og með meistarpróf í mannauðsstjórnun og stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Við bjóðum Sigrúnu velkomna í starfið og hlökkum til að starfa með henni að framgangi félagsins á næstu mánuðum.

Breytingar á stjórn Flóru

By | Fréttir

Drífa Sigurðardóttir sem setið hefur í stjórn Flóru undanfarin ár hefur látið af stjórnarsetu í kjölfar þess að hún mun láta af störfum sem mannauðsstjóri Isavia á næstu vikum. Í stað Drífu kemur Ragna Margrét Norðdahl inn sem meðstjórnandi.

Stjórn Flóru vill þakka Drífu fyrir sitt framlag til félagsins undanfarin ár og óskar henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Stjórn Flóru 2016 – 2017

By | Fréttir

Ný stjórn Flóru var kosin á síðasta aðalfundi félagsins.

Stjórnina skipa:

Sigríður Elín Guðlaugsdóttir, Háskólanum í Reykjavík (formaður)

Dröfn Guðmundsdóttir, Nýherja (varaformaður)

Drífa Sigurðardóttir, ISAVIA (stjórnarmaður)

Hafsteinn Bragason, Íslandsbanka (stjórnarmaður)

Harpa Víðisdóttir, Verði (varamaður)

Stjórnarframboð samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Fráfarandi stjórnarmenn Inga Birgisdóttir og Sigríður Indriðadóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs, þeim eru þökkuð góð störf fyrir félagið

Viðburðir framundan 2017

By | Fréttir

Nýtt starfsár Flóru er hafið. Skemmtilegir og fræðandi tengslaviðburðir framundan. Hlökkum til að sjá ykkur!

 

Hvenær Efni Staðsetning
12-13 janúar Norræn ráðstefna á vegum félaga um mannauðsstjórnun á norðurlöndum Osló
9. febrúar

 

Aðalfundur Flóru Bryggjan, brugghús
1.mars Könnun um framtíða starfa í samvinnu við félög um mannauðsstjórnun á norðurlöndum Send á félagsmenn
16. mars Persónuverndarlögin og áhrif á stjórnun mannauðsmála Síminn
Apríl Jafnlaunavottun: Sýn stjórnvalda og reynsla fyrirtækis. Vörður
Maí Stefnumótun Flóru

 

Nánar auglýst síðar
Júní Mannauðsstjórnun í tæknigeiranum: Samspil mannauðsstjórnunar og nýsköpunar Nánar auglýst síðar
September Heimsókn í nýjar höfuðstöðvar

 

Íslandsbanki
27. október Mannauðsdagurinn

 

Harpa
Nóvember Mannauðsstjórnun í alþjóðlegu umhverfi

 

Nánar auglýst síðar
Desember Tengslafundur + Jólafundur

 

Nánar auglýst síðar